141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:35]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þar sem við erum stödd í þessari umræðu eru þrír þættir sem mig langar til að vekja athygli á. Í fyrsta lagi vildi ég nefna vegna umræðu sem átti sér stað hér áðan, um að óeðlilegt væri að beina spurningum og athugasemdum til ráðherra ríkisstjórnarinnar vegna tillagnanna í fjárlagafrumvarpinu, að það er nauðsynlegt að fram komi að langflestar af þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir að sínum eru ættaðar frá ríkisstjórninni sjálfri, ekki frá meiri hlutanum í fjárlaganefnd. Það er meira að segja svo hentugt að í meirihlutaálitinu er sérstaklega tilgreint hver uppruni þeirra tillagna er sem lagðar eru fram. Þar stendur við hvern liðinn á fætur öðrum: Samþykkt af ríkisstjórn, samþykkt af ríkisstjórn og svo framvegis, endalaust. Ég mundi halda að 90% af þeim tillögum sem er að finna í meirihlutaálitinu séu ættuð frá ríkisstjórninni en ekki frá meiri hlutanum í fjárlaganefnd. Út af fyrir sig væri því full ástæða til að spyrja þá sömu ríkisstjórn þar sem uppruni tillagnanna er út í ýmsa þætti í þessu sambandi. Þetta vildi ég taka fram, hæstv. forseti, vegna umræðu sem átti sér stað fyrr í dag þar sem talsmenn ríkisstjórnarflokkanna í fjárlaganefnd létu í veðri vaka að þetta mál væri algerlega þeirra mál og ástæðulaust að blanda ráðherrum ríkisstjórnarinnar þar inn í.

Það eru tvö önnur atriði sem ég ætla að nefna í þessari ræðu. Fyrra atriðið varðar mál sem ég hef minnst á örfáum orðum áður í umræðunni en engum svörum hefur verið komið á framfæri vegna þeirra spurninga sem ég hef fram að færa í þeim efnum. Það varðar IPA-styrkina, fjárframlög frá Evrópusambandinu vegna aðildarumsóknar Íslands. Ég spurði fyrr í umræðunni hvernig á því stæði að í upprunalegu fjárlagafrumvarpi hefði verið gert ráð fyrir að til ríkissjóðs rynnu 384 millj. kr. frá Evrópusambandinu á þessum forsendum en sú tala væri nú í breytingartillögum meiri hlutans komin upp í 806 millj. kr. Aukningin milli 1. og 2. umr. er 422,4 millj. kr., sýnist mér í fljótu bragði. Ég velti fyrir mér hvort eitthvað nýtt eða óvænt hefði komið upp sem gerði að verkum að fjárhæðin hefði hækkað milli 1. og 2. umr., eða hvort skýringanna væri hugsanlega að leita í því að það hefði þótt óþægilegt að taka þetta inn í fjárlagafrumvarpið upphaflega og verið væri að lauma þessu með á síðari stigum.

Ég hef áður sagt að ég þekki þetta mál ekki það vel að ég geti fullyrt nokkuð í þessum efnum. Ég er vel tilbúinn til að samþykkja skynsamlegar skýringar á því hvers vegna þessi hækkun verður milli umræðna, en þær skýringar hafa ekki komið fram enn þá.

Ég fór að hugsa um þetta mál aftur í dag vegna fréttar sem ég sá á vef Ríkisútvarpsins í morgun. Þar er fjallað um IPA-styrkina á næsta ári og þar eru nefndar tölur sem hafa valdið mér nokkurri umhugsun í dag, vegna þess að ég á erfitt með að sjá samhengi milli þeirra og þess sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögunum. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í þessa frétt Ríkisútvarpsins sem birtist á vef þess í morgun, en þar segir:

„Aðildarríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að styrkja embætti tollstjóra, Fjármálaeftirlitið og Hagstofuna um 1,8 milljarða króna á næsta ári. Meira en helmingur fjárins fer í að byggja upp nýtt rafrænt tollkerfi.

Um svokallaða IPA-styrki er að ræða en þá veitir Evrópusambandið þeim ríkjum sem sótt hafa um aðild að sambandinu til að styrkja stjórnsýslu þeirra og gera þau betur í stakk búin til að takast á við umsóknarferlið.

Undanfarin tvö ár hefur íslenska stjórnsýslan þegið hátt í 4 milljarða króna styrki, ýmist til að styðja stofnanir eða undirbúa þátttöku í uppbyggingarsjóðum Evrópusambandsins.“

Svo segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir því sem fréttastofa kemst næst er gert ráð fyrir að þrjú verkefni hljóti styrki á næsta ári. Hátt í milljarður fer í rafrænt tollkerfi hjá embætti tollstjóra en byggja þarf upp nýtt tölvukerfi sem er sambærilegt við tollskrárkerfi ESB. Um hálfur milljarður rennur til Fjármálaeftirlitsins til að kosta skipulags- og áherslubreytingar í eftirliti með allri fjármálastarfsemi. Loks styrkir Evrópusambandið Hagstofuna til að bæta fyrirtækjatölfræði svo hún verði í samræmi við kröfur EES-samningsins. Samtals nema styrkirnir því 5,7 milljörðum króna á þriggja ára tímabili.“

Svo segir að lokum í niðurlagi fréttar Ríkisútvarpsins:

„Umræddir IPA-styrkir hafa verið afar umdeildir, einstaka þingmenn hafa kallað þá áróðursherferð Evrópusambandsins og aðlögun að ESB og Jón Bjarnason hefur kallað styrkina mútufé. Árið 2010 ákváðu ráðherrar Vinstri grænna að hafna styrkjunum fyrir hönd stofnana sem heyrðu undir þeirra ráðuneyti.“

Nú vil ég segja um þetta að ekki kemur fram hvaðan fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur þær fjárhæðir sem þarna er um að ræða. Ég finn þeim ekki alveg stað í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Ég velti fyrir mér hvort mér annaðhvort yfirsjáist eitthvað í því sambandi eða fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi aðrar upplýsingar en við, en það er a.m.k. ljóst að gert er ráð fyrir IPA-styrkjum til þeirra þriggja stofnana sem þarna eru tilgreindar, Fjármálaeftirlits, Hagstofu og tollstjóra, en í breytingartillögum meiri hlutans og fjárlagafrumvarpinu sjálfu er reyndar um að ræða töluvert af IPA-styrkjum til annarra stofnana.

Í fljótu bragði sé ég að nokkrar stofnanir umhverfisráðuneytisins gera ráð fyrir að fá IPA-styrki á næsta ári og hafa svo sem fengið þá áður. Sem dæmi má nefna Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands. Atvinnuvegaráðuneytið á að fá, reyndar á lið iðnaðarráðuneytis, tímabundnar fjárheimildir til að undirbúa mögulega þátttöku í byggðastefnu og uppbyggingarsjóðum ESB, og svo er auðvitað um að ræða Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins sem hefur fengið styrki og mun fá þá áfram. Þarna er um verulegar upphæðir að ræða. Ef marka má breytingartillögur meiri hlutans eru tillögur um að á næsta ári verði tekið við rúmum 800 milljörðum kr. og er það töluverð aukning milli umræðna eins og ég nefndi í upphafi. Það er hins vegar spurning hvort heimildir Ríkisútvarpsins eru réttar um að það sé jafnvel um enn þá hærri fjárhæðir að ræða og hvernig þær verði þá færðar. Munu þær koma inn milli 2. og 3. umr. eða munu þær detta inn með öðrum hætti inn í bókhald ríkisins, eins og hefur gerst áður og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur vísað til?

Því nefni ég þetta, hæstv. forseti, að mér hefur þótt vera töluverður feluleikur í kringum IPA-styrkina. Ég vildi gjarnan að einhver ábyrgðarmaður þeirra tillagna sem hér liggja fyrir, hvort sem um er að ræða ráðherra í ríkisstjórn eða talsmenn meiri hlutans í fjárlaganefnd, mundi útskýra aðeins, áður en þessari umræðu lýkur, hvernig þessu er háttað.

Það er síðan athyglisvert, af því að Ríkisútvarpið minntist á það og rifjaði upp í frétt sinni, að ráðherrar Vinstri grænna hefðu ákveðið að sækja ekki um IPA-styrki, að það hefur verið töluverður feluleikur í kringum það. Í stað þess að ráðherrar sæki um sjálfir hefur þetta verið afgreitt þannig að ráðherranefnd um Evrópumál hefur samþykkt tillögur frá samninganefnd og farnar ýmsar krókaleiðir í kringum þetta. En staðreyndin er sú, þegar horft er á þann lista yfir IPA-styrki sem hér er um að ræða, að drjúgur partur, sennilega töluverður meiri hluti IPA-styrkjanna, rennur til stofnana eða ráðuneyta sem lúta stjórn ráðherra úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Hafi þeir samþykkt afdráttarlaust að taka ekki við IPA-styrkjum á sínum tíma hefur lítið orðið úr efndum að því leyti.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að nefna fleiri atriði en næ því ekki á þeim skamma tíma sem hér er til ráðstöfunar. Ég mun vonandi fá tækifæri til að koma nánar að þeim síðar í umræðunni. Ég vil að lokum segja að þær vangaveltur sem ég hef um IPA-styrkina eru þess eðlis og frétt Ríkisútvarpsins er það mikið á skjön við það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að nauðsynlegt er að (Forseti hringir.) talsmenn meiri hlutans útskýri fyrir okkur hvernig IPA-styrkjamálum verður nákvæmlega háttað á næsta ári og hvernig frá þeim er gengið í fjárlagafrumvarpinu.