141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ánægður að heyra þetta sjónarmið hv. þingmanns, ég held að við getum verið sammála um þetta. Ég ætlaði reyndar, til að bera í bætifláka fyrir fjarstadda menn, að nefna að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók undir sjónarmið af því tagi sem ég lét í ljósi við upphaf umræðunnar. Hið sama gerði raunar á sinn hátt hv. formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, þó að hann tæki ekki jafnsterkt til orða og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. En ég geri mér nokkrar vonir um að alla vega hjá þessum tveimur hv. þingmönnum, sem eiga meðal annars sæti í fjárlaganefnd, sé nokkur skilningur á þessu, að minnsta kosti hvað embættin úti á landi varðar.

Ég hef meiri áhyggjur af því að sá skilningur þeirra nái ekki til höfuðborgarsvæðisins með sama hætti og hjá mér og hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni.