141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við uppsögnum hjúkrunarfræðinga.

[15:12]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér hefði ég getað svarað spurningunum með því að segja: Já, við munum gera það, við munum skoða endurnýjun á stofnanasamningum. En ég vil samt taka það fram að frá því að síðustu kjarasamningar voru gerðir hafa ekki verið gerðir nema tveir stofnanasamningar, við Reykjalund og Mörkina. Ekki hafa verið gerðir neinir stofnanasamningar við BHM-félögin sem eru með þetta ákvæði í kjarasamningum sínum. Hvað þarf mikið fjármagn? Það þarf maður að vita áður en maður setur inn einhverjar ákveðnar upphæðir eða peninga. Svarið er því að hvort tveggja mun að sjálfsögðu verða skoðað, en áður en svo langt verður gengið í ræðustóli að segja það þarf að vita nákvæmlega og greina hvað þarf til. Þá þurfum við líka að vita hvað býr að baki uppsögnunum því að við höfum heyrt sögur um gríðarlega miklar launavæntingar. Það afgreiðir maður ekki í fjárlögum einn, tveir og þrír án þess að vera búinn að fara vandlega yfir málið. Þannig vinn ég að minnsta kosti ekki. Ég verð að vita nákvæmlega hvað það þýðir.