141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar kalla ég enn eftir því að þeir hv. þingmenn sem hafa talað um að þetta séu glæsileg fjárlög komi í andsvör og bregðist við þeim athugasemdum sem ég hef gert margítrekað við stöðuna á heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ sem á að loka núna aðra hverja helgi. Mjög lágar upphæðir sparast við þá aðgerð. Ég sé að þessir hv. þingmenn eru í húsi núna, m.a.s. hæstv. velferðarráðherra. Það væri mjög æskilegt að þetta fólk gæfi sér þótt væru ekki nema örfáar mínútur til að koma í andsvör.

Í ljósi þess að hv. þm. Guðmundur Steingrímsson er einn af höfundum svokallaðrar fjárfestingaráætlunar verð ég líka að segja fyrir mína parta að ég teldi mun skynsamlegra að sleppa sumu sem þar er inni, t.d. náttúruminjasýningu sem á að setja upp sem á að kosta 500 milljónir, bara uppsetningin á sýningunni, en lágmark er að þetta fólk ræði þessi mál hér við mig. Bara í lokin vil ég segja að þó að það sé bjart hjá mörgum er ekki björt framtíð yfir rekstri heilsugæslustöðvarinnar í Snæfellsbæ.

Mig langar í þessari ræðu minni að fara aðeins yfir einn af þeim stóru liðum sem ég tel mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir og fjalla hér ítarlega um og hann snýr að skuldsetningu ríkissjóðs og vaxtagjöldum og vaxtagreiðslum hans. Við erum að fjármagna ríkissjóð í skjóli gjaldeyrishafta og þess að það eru mjög lágir markaðsvextir á erlendum fjármagnsmörkuðum. Miðað við skuldsetningu ríkissjóðs og skuldbindingar sem eru upp undir 2 þús. milljarðar kr. sjá allir að örlítil breyting, þó að það væri ekki nema bara brot úr prósenti eða svo, hefur gríðarleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Vaxtagjöldin og í raun vaxtajöfnuðurinn hefur aukist og af því hef ég verulegar áhyggjur. Bara til að árétta það er gert ráð fyrir því að á næsta ári muni ríkissjóður þurfa að greiða 84 milljarða í vexti. Það eru um 15% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og eiginlega þriðji stærsti fjárlagaliðurinn í frumvarpinu. Ef maður skoðar það sem hefur verið að gerast og rýna það sést, og það kemur mjög vel fram í áliti okkar í 1. minni hluta, að vaxtajöfnuðurinn, þ.e. þegar tekið er tillit til vaxtagjalda og vaxtatekna ríkissjóðs, eykst verulega. Hann er búinn að fara núna á tveimur árum úr 46 milljörðum í rúma 63 milljarða, þetta er 17 milljarða breyting á tveimur árum. Það segir sig sjálft að það er gríðarlega mikilvægt að ná þessu niður.

Það sem hræðir mig í þessu og ég hef verulegar áhyggjur af er það sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera á undanförnum missirum sem snýr að vaxtagjöldum ríkissjóðs. Þá vil ég rifja upp að fyrir fjárlögin 2012, þ.e. fyrir um ári, var umræða um það hvort dregið yrði á svokallaðar lánalínur hjá Norðurlöndunum eða samstarfsþjóðunum og hvort þau vaxtagjöld yrðu að vera inni í fjárlögum fyrir árið 2012. Þá lá ekki fyrir ákvörðun um hvort það yrði gert.

Eftir að fjárlögin voru afgreidd var tekin ákvörðun um það í lok árs 2011 að draga á þær lánalínur sem voru þarna fyrir hendi og í framhaldi af því var tekin ákvörðun um það, í mars á þessu ári, að greiða sem svarar 40 milljörðum inn á lán Norðurlandanna. Það sem ég hef verulegar áhyggjur af er að í maímánuði á árinu 2012 er farið að gefa út skuldabréf á bandarískum fjármálamarkaði upp á 1 milljarð bandaríkjadala, á þeim tíma um 124 milljarða kr., og með 6% vöxtum. Í framhaldi af þessu bréfi eru greiddar niður skuldir samstarfsþjóðanna, Norðurlandanna, um 85 milljarða kr.

Það sem er merkilegt við þessa fléttu hjá hæstv. ríkisstjórn er að vaxtagjöldin aukast við þennan gjörning um 3 milljarða, bara vegna þessa gjörnings. Menn fara í útboð og gefa út skuldabréfið með óhagstæðari vöxtum er verið að greiða upp gjalddaga á Norðurlandalánunum sem eru á árunum 2016, 2017 og 2018.

Einhver gæti haldið því fram, og það með réttu, eins og ég hef líka gert í umræðunni að þetta væri ekki skynsamleg ráðstöfun. Í fyrsta lagi virðist sýnin ekki nægilega mikil um það hvert á að halda, að byrja á að draga á lánalínur í árslok 2011, byrja þremur mánuðum síðar að greiða inn á sambærileg lán, fara svo í framhaldi af því fimm mánuðum seinna, í maímánuði, að gefa út 1 milljarð bandaríkjadala í skuldabréfum sem eru með mun verri vaxtakjörum og svo í framhaldi af því að greiða upp gjalddaga með lægri vöxtum á árunum 2016, 2017 og 2018. Ég gagnrýni þetta mjög harkalega vegna þess að þetta er ákveðin tilraunastarfsemi, vil ég leyfa mér að segja.

Hérna er um að ræða aukavaxtagreiðslur upp á milljarða og það er umhugsunarvert þegar við ræðum stöðu einstakra stofnana og þá stöðu sem er í þjóðfélaginu, hvort heldur er ástandið á Landspítalanum, á heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ eða löggæslu. Fleira mætti telja upp. Ég hef verulegar áhyggjur af heildaryfirsýninni á þessum hlutum. Auðvitað hræðir það mig þegar svona ákvarðanir virðast vera teknar.

Því hefur verið haldið fram að það sé mikilvægt að sýna fram á það að ríkissjóður hafi aðgang að erlendu fjármagni, en tryggir þetta útboð til að mynda áframhaldandi aðgang íslenskra stjórnvalda eða ríkisins að erlendu fjármagni? Það hefur ekkert um það að segja, akkúrat ekki neitt. Þarna er verið að fórna gríðarlega háum upphæðum og að mínu mati þarf að taka þessa hluti mun fastari tökum þannig að við förum ekki í þá vegferð að auka vaxtaútgjöld ríkisins enda kemur það skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu að vaxtajöfnuðurinn eykst, eins og ég kom inn á áðan, um tæpa 20 milljarða á aðeins tveimur fjárlagaárum. Það er mikið áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að skuldsetning ríkissjóðs er mjög mikil.

Ég vil líka nota síðustu mínúturnar mínar til að fara aðeins yfir stóru myndina að mínu mati. Það mikilvægasta sem þarf að gera fyrir utan að ná tökum á ríkisfjármálunum er að setja fjármálareglur. Það vill þannig til að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson er 1. flutningsmaður að svoleiðis máli sem er gríðarlega mikilvægt til þess að ná eiginlega tökum, ef ég má nota það orð, á stjórnmálamönnunum á hverjum tíma. Núna sjáum við hvernig það endurspeglast í þessum fjárlögum að kosningar eru í nánd og þá fara menn að moka út peningum í ótímabærar framkvæmdir, að mínu mati, til að mynda hús íslenskra fræða fyrir 3,7 milljarða, að setja upp eina sýningu fyrir 500 milljónir og síðan á aðgangseyririnn að sjá um að borga bæði reksturinn og skuldbindingar af þessari sýningu. Það er að mínu mati hálfhlægilegt að slíkur texti skuli standa með þessum skýringum.

Úr Seðlabankanum heyrast áhyggjur af því að ekki sé búið að setja fjármálareglur fyrir ríkisvaldið. Það er umhugsunarvert að við settum sveitarfélögunum fjármálareglur fyrir stuttu. Það var ekki gert að ástæðulausu og það var þverpólitísk samstaða um það á þingi en þá er mjög óeðlilegt að við gerum ekki sömu kröfur til okkar sjálfra og til sveitarstjórnarmanna sem eru hitt stjórnsýslustigið og veita að sjálfsögðu svipaða þjónustu og við, svokallaða grunnþjónustu, þannig að það er eðlileg krafa að setja líka fjármálareglur á þinginu til að við náum tökum á gríðarlegum skuldum ríkissjóðs og hættum að líta þannig á að þetta reddist inn í framtíðina. Það verður að taka á skuldsetningu ríkissjóðs ekki seinna en strax og hefði þurft að vera búið að því fyrir löngu. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að það náist þverpólitísk samstaða um að setja fjármálareglur.