141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi þá sjónvarpsstöð sem hv. þingmaður nefndi þá finnst mér ómögulegt sem starfandi sjónvarpsmaður að vera að auglýsa mig úr ræðustól Alþingis þannig að ég kaus að minnast ekki á hana.

Um kynjuðu hagstjórnina: Nú vita sumir að ég er menntaður hagfræðingur. Ég eyddi drjúgum hluta ævi minnar í að ná doktorsgráðu í hagfræði, þjóðhagfræði, og sérhæfði mig í hagstjórn og öðru slíku. Ég varð síðan prófessor við Háskóla Íslands og síðar við Háskólann í Reykjavík og var forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem megnið af hagfræðirannsóknum á Íslandi voru gerðar um langa hríð. En allan þann tíma sem ég var í þessu varð ég ekki var við að til væri það sem heitir kynjuð hagstjórn. Það er alveg nýtt fyrirbæri.

Ég er ekki betur gefinn en það að ég hef ekki alveg náð utan um hvað átt er við með kynjaðri hagstjórn. Mér finnst leiðinlegt að svara þingmanninum á þann veg að ég viti ekki hvort það er gott eða slæmt að skattleggja kvennastörf út frá kynjaðri hagstjórn. Það gæti vel verið að það væri gott en það fer kannski eftir því af hvaða sjónarhóli maður horfir. Ég veit ekki af hvaða sjónarhóli er horft í kynjaðri hagstjórn og bara veit yfirleitt ekkert hvað það er.