141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[22:00]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég met hreinskilið svar en þetta er raunverulega sama svarið og hv. þingmaður gaf þegar veiðileyfagjöldin voru lögð á. Þá sagði hún að það væri gríðarlegur hagnaður í greininni og að hún réði vel við þetta, greinin ætti að taka þátt í að byggja upp þjóðfélagið, en nú bárust þær fréttir frá Þorlákshöfn í morgun að þar var verið að segja upp 27 manns, 35 manns var sagt upp á Siglufirði og svo framvegis.

Er hv. þingmaður ekkert hrædd um að þessar skattahækkanir geti haft svipaðar afleiðingar, að þær fækki starfsfólki í ferðaþjónustu og muni á endanum leiða til samdráttar í ferðaþjónustu? Við höfum séð að bókunartölur til dæmis á Icelandair-hótelunum eru 15% lægri en í fyrra.