141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:19]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Pétur Blöndal benti á, hér er um að ræða seinni atlögu ríkisstjórnarinnar að ferðaþjónustunni. Verði þessi áform að veruleika verður stoðunum kippt undan þessari mikilvægu atvinnugrein og rekstrargrundvöllur margra bílaleiga í landinu settur í uppnám. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að farið verði mun betur yfir þessi áform vegna þess að ef fram heldur sem horfir mun innflutningur á bílum minnka til mikilla muna. Bílaflotinn eldist og þar af leiðandi minnkar umferðaröryggi.

Það er ekki hægt að horfa upp á að þeir flokkar sem hafa þóst vilja styðja við ferðaþjónustu í landinu skuli ganga fram með þessum hætti. Hér er um að ræða illa ígrundaðar áætlanir sem munu á endanum leiða til minni tekna ríkissjóðs. Mér er fyrirmunað að skilja á hvaða vegferð Vinstri grænir og Samfylkingin eru í þessum málum.