141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér sjáum við herkostnaðinn af nýja sjávarútvegsskattinum birtast okkur. Annars vegar er um að ræða 40 millj. kr. til Fiskistofu. Það kemur fram í skýringum meiri hluta fjárlaganefndar að hugmyndin sé sú að ráða að minnsta kosti fjóra nýja sérfræðinga, með öðrum orðum er gefið til kynna að þetta sé nú bara upphafið að því sem koma skal.

Síðan er annað mjög sérkennilegt, einnig er greint frá því í breytingartillögu meiri hlutans að orðið hafi frekari kostnaður við álagningu veiðigjaldsins í meðförum Alþingis en hins vegar er ekki tekið tillit til þess í þeirri tillögu. Meiri hlutinn bregst með öðrum orðum ekki við samþykkt Alþingis.

Í annan stað er verið að fjármagna veiðigjaldanefnd upp á 30 millj. kr. Ég er viss um að það er ekki of í lagt því að sú löggjöf var svo illa úr garði gerð að öllum er ljóst, m.a. þeim sem stóðu að samþykkt hennar, að einhvern veginn þyrfti að lagfæra hana og veiðigjaldanefndin á að hafa það hlutverk. Nefndin á m.a. að hafa það frumkvæðishlutverk að beina tillögum (Forseti hringir.) til hæstv. atvinnuvegaráðherra í þeim efnum. Þarna sjáum við klúðrið birtast okkur (Forseti hringir.) og við sjáum klúðrið sem veiðigjaldanefndin á að reyna að bjarga.