141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og hrós í garð ríkisstjórnarinnar fyrir að fækka stofnunum og sameina ráðuneyti. Ég hefði gjarnan viljað heyra líka jákvæðar umsagnir um ýmsar hvetjandi aðgerðir sem eru í frumvarpinu, m.a. um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda, aukin framlög til barnabóta og vaxtabóta og annarra hluta sem hjálpa heimilunum í landinu.

Það er hins vegar óhjákvæmilegt vegna umræðna um hækkandi skatta að halda því skýrt og vel til haga að ríkissjóður hefur ekki verið að auka hlut sinn í þjóðarkökunni. Sannarlega dróst landsframleiðsla hér saman og það hafa allir þurft að axla þær byrðar en ríkið tekur ekki stærri hluta af kökunni en var í tíð Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, raunar heldur minni ef eitthvað er.

Í öðru lagi, til að menn átti sig á því hvort óhóflega sé gengið fram í skattlagningu, er skatthlutfall á Íslandi lægst á öllum Norðurlöndunum. Engu að síður gerum við Íslendingar tilkall til þess að njóta þeirrar velferðar sem ríkir á Norðurlöndunum og alveg augljóst af því að sannarlega er ekki gengið of langt í því að leggja á skatta á Íslandi, almennt talað.

Í þriðja lagi verður að halda því til haga að er ekki verið að leggja hækkaða skatta á einstaklinga utan þá sem reykja að vísu og taka í nefið, það er rétt eins og hv. þingmaður bendir á, en að öðru leyti er aðeins um verðlagsuppfærslur á sköttum að ræða. Það hefur tekist að gera allar þær skattkerfisbreytingar þannig að fólk með meðaltekjur og lægri tekjur ber ekki þyngri hlut en það gerði fyrir hrun, þrátt fyrir efnahagshrunið. Það eru einmitt auðlindirnar, arðurinn af auðlindunum, erlend stóriðja, stóreignafólk og hátekjufólk sem ber byrðarnar. Maður hlýtur að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki eðlilegt (Forseti hringir.) eftir nærri því gjaldþrot heils samfélags að það séu einmitt hin breiðu bökin sem axla (Forseti hringir.) byrðarnar eftir slíkt (Forseti hringir.) hrun?