141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að þessi óvissa sé mjög neikvæð. Ég held að það sýni sig að mörgu leyti í þeirri litlu fjárfestingu sem er í íslensku atvinnulífi í dag. Ég held að óvissan sé mjög stór þáttur í því. Ég held að það hafi verið 2011 sem Pricewaterhouse Coopers í Belgíu gerði skýrslu fyrir fjárfestingasvið Íslandsstofu og bar saman samkeppnishæfni Íslands, Svíþjóðar, Möltu og svæða í Belgíu, allt saman lönd og svæði sem voru í því að laða til sín beina erlenda fjárfestingu. Í stuttu máli sagt fékk Ísland falleinkunn í þessari skýrslu í samanburði við hin löndin. Ástæðan fólst í nokkrum atriðum og ekki síst hinni pólitísku óvissu, þ.e. að þessi fyrirtæki geta ekki treysta á stöðugleika. Það var þannig á Íslandi að atvinnulífið gat treyst orðum stjórnvalda, gat treyst því að menn stæðu við það sem þeir segðu við ríkisstjórnarborðið. Viðbrögð aðila vinnumarkaðarins í dag, Samtaka atvinnulífsins, ASÍ o.fl., eru þau að þeir segjast ekki lengur geta haft samskipti við þessa ríkisstjórn vegna þess að þeir geti ekki treyst henni.

Þessi óvissa er hræðilegur dragbítur á allt og það er út í bláinn að halda því fram að sú óvissa sem nú hefur verið sköpuð í ferðaþjónustunni hafi ekki áhrif á stórar hugmyndir erlends aðila um að byggja jafnvel stórt hótel í miðborg Reykjavíkur. Óvissa hefur augljóslega áhrif (Forseti hringir.) og þeir sem loka augunum fyrir henni vilja ekki þess konar atvinnuuppbyggingu. Uppbyggingaráform þeirra endurspeglast auðvitað (Forseti hringir.) í því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir.