141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það var mikil framför í þingumræðunni og þingsköpunum þegar innleidd voru í þingsköpin ákvæðin um andsvör. Það gerbreytti allri umræðu á Alþingi og gerði hana snarpa og kallaði á það að menn skiptust á skoðunum og ydduðu skoðanir hver annars með alvöruskoðanaskiptum. Halldór Blöndal sem hér sat á forsetastóli kenndi mér það að til þess væri ætlast af mönnum að hafa uppi undir þessum lið andsvör en ekki meðmæli eða skjall eða nota þennan dagskrárlið til að mæra hverjir aðra eða taka undir sjónarmið hver annars enda héti dagskrárliðurinn andsvör.

Ég verð að segja að sú umræða, ekkert sérstaklega núna í þessum andsvörum heldur almennt á síðustu árum, sem hefur þróast undir þessum lið er satt að segja ákaflega mikil afturför í þinglegri umræðu vegna þess að hún felur ekki í sér skoðanaskipti. Menn eru bara að drepa tímann hver fyrir öðrum og taka undir sjónarmið hver annars í frekar miklu merkingarleysi. Ég held (Forseti hringir.) að full ástæða sé fyrir forsætisnefnd að ræða það hvort ekki sé hægt að vinda ofan af þeirri (Forseti hringir.) óheillaþróun í andsvörunum og einnig að gera kröfu til þess að menn haldi sig við það umræðuefni sem er á dagskrá (Forseti hringir.) og fari ekki að ræða alveg óskylda liði eins og safnliði á fjárlögum undir umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum.