141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef grun um að það sem hefur gerst varðandi skattahækkanir á ferðaþjónustuna sé lýsandi fyrir það hvernig ríkisstjórnin metur hlutina ekki rétt. Hún virðist gera ráð fyrir því að atvinnurekendur og aðrir geri ekki neinar framtíðaráætlanir, ekkert frekar en ríkisstjórnin. Af því að ríkisstjórnin tekur skyndiákvarðanir, breytir hlutum fram og til baka, þá gerir hún líklega ráð fyrir því að aðrir hafi hlutina eins og þess vegna sé ekki við öðru að búast fyrir ferðaþjónustu eða aðra en að þær aðstæður sem menn starfa við geti breyst dag frá degi.

Utan ríkisstjórnarinnar er því ekki svoleiðis farið sem betur fer. Í dag voru Flugleiðir að tilkynna mikil kaup á nýjum Boeing-þotum og þá komu stjórnarliðar og sögðu: Ja, sjáið þið, þarna er fyrirtæki að fjárfesta í ferðaþjónustu sem hlýtur að þýða að það sé sátt um stefnuna eins og hún er núna. En hvað voru Flugleiðir að gera? Fyrirtækið var að leggja inn pöntun til að geta keypt flugvélar eftir fimm ár, sem sagt ekki bara eftir næstu kosningar heldur eftir þar næstu kosningar.

Þar er sjálfsagt sú trú að staðan muni batna með tvennum kosningum, að minnsta kosti. En ríkisstjórnin hélt að af því að þessi ákvörðun var kynnt í dag þá væri hún afleiðing af stefnu þessarar ríkisstjórnar, sem er svolítið lýsandi fyrir þetta vandamál.

En af því að hv. þingmaður nefndi Þýskaland þá ætlaði ég að fjalla um þær breytingar sem hafa orðið á skattkerfinu þar er varða ferðaþjónustuna, en ég hef ekki tíma til þess, (Forseti hringir.) virðulegur forseti er búinn að eyða tímanum mínum hér út af klukkunni svo ég verð að láta staðar numið.