141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi fagna því að verið sé að bregðast við því óveðri sem gekk yfir Norðurland og Norðurland vestra nú í haust þar sem verið er að opna á það að menn geti fengið beingreiðslur og álagsgreiðslur vegna gæðastýringar með sama hætti og ef um riðuniðurskurð væri að ræða. Ég held að það sé fagnaðarefni og ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa brugðist hratt og vel við þessu. Því ber að fagna. Við sáum það vel í haust hversu lítils megnug við erum þegar kemur að náttúrunni. Um er að ræða gríðarlegt tjón hjá mjög mörgum bændum á Norðurlandi og Norðurlandi vestra, Eyjafirði, Suður-Þingeyjarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu.

Við höfum líka séð í framhaldi af því hversu mikilvægt það er fyrir Íslendinga þegar svona steðjar að að við þjöppum okkur saman og séum tilbúin til að standa með þeim sem glíma við erfiðleika og kostnað vegna þessa.

Síðan þegar kemur að endurskipulagningu leiðbeiningarþjónustunnar held ég að þar sé um mikið framfaraskref að ræða. Eins og komið hefur fram í umræðum er þetta eitthvað sem hefur verið unnið að í töluverðan tíma. Ég held að með því séum við að gera leiðbeiningarþjónustuna í landbúnaðinum mun skilvirkari og þetta skref til frambúðar held ég að sé til þess fallið að efla og styrkja leiðbeiningarþjónustuna, efla og styrkja landbúnaðinn og efla, styrkja og ýta undir þá möguleika og sóknarfæri sem íslenskur landbúnaður á.

Nýlega var ráðstefna þar sem fjallað var um þau sóknarfæri sem matvælaframleiðsla á Íslandi á í breyttri heimsmynd. Við horfum upp á að hitastigið er að hækka sem gerir það að verkum að framleiðslubeltin færast norðar og það eru gríðarleg sóknarfæri fólgin í því fyrir íslenska þjóð. Fólksfjölgunin í heiminum í dag er þannig að á hverjum degi — í kvöld eru 250 þúsund fleiri í mat en voru í gærkvöldi, og svona gerist þetta á hverjum einasta degi. Það liggur því ljóst fyrir að á næstu áratugum þarf að tvöfalda fæðuframleiðslu í heiminum. Í því felast gríðarleg sóknarfæri fyrir Íslendinga. Við höfum mikil tækifæri til þess að framleiða vörur af miklum gæðum. Við erum samhliða þessu að sjá sölukerfi þróast, meðal annars sölukerfi beint frá býli, vistvæna framleiðslu, lífræna framleiðslu o.s.frv.

Ég held að sú breyting sem verið er að gera á endurskipulagningu leiðbeiningarþjónustunnar í landinu sé mikið framfaraskref og ég vil nota þetta tækifæri enn og aftur til þess að fagna því skrefi.