141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:06]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þetta eru lög nr. 99/1999, svo fallega sem það hljómar, og frumvarpið er á þskj. 578 og þetta er 456. mál þingsins.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á 5. gr. laganna sem fjallar um gjaldskylda aðila, álagningarstofn og álagt gjald, eftirlitsgjald.

Í 1. gr. laganna er kveðið á um að eftirlitsskyldir aðilar og aðrir gjaldskyldir aðilar skv. 5. gr. skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Um ákvörðun álagningar eftirlitsgjalds er fjallað í 2. gr. laganna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.

Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júní ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.

Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal ráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“

Frá því að Fjármálaeftirlitið tók til starfa hefur verið leitast við að tryggja að starfsemi þess væri í samræmi við kjarnareglur alþjóðlegu bankaeftirlitsnefndarinnar um virkt fjármálaeftirlit. Til þess að svo megi verða er óhjákvæmilegt að stofnuninni sé tryggt nægilegt rekstrarfé, fullnægjandi lagaheimildir til eftirlits, virk ákvæði til framfylgni ákvarðana og sjálfstæði gagnvart öðrum hagsmunum en þeim sem felast í sjálfu eftirlitinu. Markmið frumvarpsins er að fjárhagsleg staða Fjármálaeftirlitsins verði áfram tryggð þannig að hún samræmist þessum kjarnareglum.

Þessa stefnu má enn fremur sjá í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 16. ágúst 2011 þar sem því er heitið að Fjármálaeftirlitið fái fullnægjandi rekstrarfé til þess að tryggja að stofnunin geti innt skyldur sínar af hendi með árangursríkum hætti.

Áætlaður rekstrarkostnaður að frádregnum 11 millj. kr. sértekjum árið 2013 nemur 1.944 millj. kr. Gert er ráð fyrir að ofangreindur rekstrarkostnaður ársins 2013 verði fjármagnaður með annars vegar eftirlitsgjaldi á eftirlitsskylda aðila og hins vegar með yfirfærslu á eigin fé frá fyrra ári. Eftirlitsgjald á árinu 2013 er því áætlað 1.743 millj. kr. og yfirfærsla frá fyrra ári 201 millj. kr. eða samtals þessar áðurnefndu 1.944 millj. kr.

Í skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins, sem birt er sem fylgiskjal I hér í frumvarpinu, er að finna sundurliðun einstakra kostnaðarliða sem hv. þingmenn geta kynnt sér.

Í rekstraráætluninni, og þá frumvarpinu, er gert ráð fyrir lækkandi gildandi álagningarhlutföllum á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki greiðslustofnana, rafeyrisfyrirtæki, Lánasjóð sveitarfélaga og fagfjárfestasjóða en hækkun á álagningarhlutfalli nokkurra annarra eftirlitsskyldra aðila. Eins og áður segir er í 2. gr. laga nr. 99/1999 kveðið á um lögbundið samráð við samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs. Skal álit samráðsnefndarinnar fylgja skýrslu Fjármálaeftirlitsins til ráðherra.

Í skýrslu samráðsnefndarinnar kemur eftirfarandi fram sem niðurstaða nefndarinnar vegna rekstraráætlunar ársins 2013, með leyfi forseta:

„Samráðsnefnd telur að með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar frá fyrri áætlunum, þar sem vexti stofnunarinnar eru settar skýrar skorður og meðal annars starfsmannafjöldi takmarkaður við rúmlega 120 í staðinn fyrir 140 þegar mest var boðið, sé betur en áður gætt að þeim ólíku sjónarmiðum sem taka þarf tillit til við eflingu og rekstur FME. Samráðsnefndin brýnir fyrir stjórn og stjórnendum FME að gæta vel að aðhaldi og hagræðingu í rekstri FME.

Frekari viðræður þurfa að fara fram á milli aðila um skiptingu eftirlitsgjaldsins og mögulega þarf að breyta hvernig gjald er lagt á aðila eins og fagfjárfestasjóði, sem FME hefur mjög takmarkað eftirlit með. Álit samráðsnefndarinnar er að drög stjórnenda FME að rekstraráætlun 2013, eins og þau hafa verið lögð fram fyrir nefndina í dag, teljist raunhæf. Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila þakkar það samráð sem stjórn og stjórnendur FME hafa haft við nefndina við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2013.“

Þess má geta að eftir að rekstraráætlunin var lögð fram hefur FME lagt til nýja og lægri áætlun eftirlitsgjalda vegna fagfjárfestasjóða líkt og sjá má í frumvarpinu þannig að komið hefur verið til móts við þau sjónarmið. Ég tel að vel hafi tekist til við gerð rekstraráætlunar FME fyrir árið 2013 og að rekstrarumfang stofnunarinnar sé raunhæft líkt og álit samráðsnefndarinnar ber með sér. Það er ljóst að nokkrum tilteknum þáttum í umfangsmikilli starfsemi Fjármálaeftirlitsins undanfarin missiri er nú að ljúka eða að minnsta kosti verulega að draga úr umfangi þeirra eins og úrvinnslu mála til sérstaks saksóknara. Eitthvað af þeim mannskap mun færast yfir í hefðbundið eftirlit og vettvangsrannsóknir en rekstrarumfangið hefur náð hámarki og mun væntanlega frekar fara minnkandi á komandi árum.

Engu að síður er mikilvægt að missa ekki sjónar á því að verulegt átak þurfti til þess að tryggja að okkar Fjármálaeftirlit uppfyllti kröfur eins og þær eru nú gerðar, ýtrustu kröfur, og stofnunin hefur verið með metnaðarfulla áætlun í gangi um að komast í fremstu röð hvað þetta varðar og orðið mikið ágengt í þeim efnum. Samtímis því mikla annríki sem verið hefur við úrvinnslu mála í kjölfar hrunsins, og gjörbreyttar aðstæður að öllu leyti í okkar fjármálakerfi sem eftirlitið hefur þurft að takast á við, hefur því miðað vel áfram hvað varðar það að tryggja gæði starfsins og mæta nýjustu og ýtrustu kröfum um gæði eftirlitsins. Í það heila tekið held ég því að þarna hafi hlutirnir verið að þróast með réttum hætti og vonandi er mönnum það nokkurt fagnaðarefni að nú er hægt að lækka nokkuð álagningu gjalda á eftirlitsskylda aðila, að vísu að hluta til vegna þess að stofnunin á ónýttar fjárheimildir sem færðar verða yfir með henni, yfir milli ára, en engu að síður er það jákvætt að þróunin er í þessa átt.

Ég mæli svo með því, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.