141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál lætur ekki mikið yfir sér en það er samhengi í þessu öllu saman. Síðasta haust var tekin upp sú nýbreytni að setja á svæðisbundna flutningsjöfnun. Þegar unnið var að lagafrumvarpi í kringum það, sem var gert í góðri samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu, var talað um að þetta væri einungis upphafið að því að koma hér á heildstæðu kerfi sem leiddi til þess að flutningskostnaður mundi lækka úti á landsbyggðinni.

Það virðist hafa verið horfið frá því. Því miður er þetta ekki til umfjöllunar í þeirri nefnd sem ég á sæti í þannig að ég mun ekki geta fjallað um þetta mál á nefndavettvangi heldur verð ég að gera það á öðrum vettvangi. Hér er sagt að flutningsjöfnunarstyrkirnir eigi að lækka á næsta ári frá því sem nú er. Það er að vísu óveruleg lækkun, ekki nema 3,5 millj. kr., en þegar lagt var í þessa vegferð var talað um að meiri fjármunum yrði varið til þess að jafna flutningskostnað í landinu, þetta væri einungis fyrsta skrefið. Þannig að eitthvað er þetta nú öfugsnúið.

Ég get lýst vandamálinu ágætlega ef ég tek eitt fyrirtæki sem dæmi, fyrirtæki sem er staðsett á Akureyri og er í kjötvinnslu. Það fyrirtæki flytur nánast allar sínar afurðir á markað hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestir búa. Flutningskostnaður hjá fyrirtækinu er 120 millj. kr. á ári. Er það ekki einhver 60% af heildarflutningsstyrkjum sem á að setja í þetta á næsta ári og var sett á þessu ári? Samkeppnisstaða þessa fyrirtækis sem eyðir 120 millj. kr. í flutninga er 120 millj. kr. verri vegna staðsetningar heldur en fyrirtækis sem væri staðsett hér í Reykjavík. Það er algjörlega ljóst að hér er einungis verið að krafla í yfirborðið með jöfnun flutningskostnaðar og það sætir mikilli furðu að ekki skuli hafa verið haldið áfram þeirri góðu vinnu sem var hafin hér á þessu ári með lögum frá Alþingi sem sett voru síðasta haust.

Sumir gætu ef til vill hugsað eða sagt sem svo að þetta væri eitthvert landsbyggðardekur og kjördæmapot eða annað slíkt, eins og maður heyrir oft og iðulega þegar talað er um landsbyggðina, en því er öðru nær. Við sjáum að þetta er tíðkað í nágrannalöndunum, Svíþjóð og Noregi. Þar þykir eðlilegt að reyna að jafna flutningskostnað til þess að jafna lífsgæðin og samkeppnisstöðu fyrirtækja á þeim stöðum sem eru langt frá miðjunni. Þetta á sérstaklega við um Ísland vegna þess að eins og við vitum er Ísland því sem næst borgríki.

Allt sem hægt er að gera til þess að ýta undir og styðja við framleiðslu sem á sér stað úti á landsbyggðinni er af hinu góða. Ég get ekki orða bundist og hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með að ekki skuli vera haldið áfram þeirri góðu vinnu sem var unnin þegar stjórn og stjórnarandstaða, í samstöðu, komu sér saman um að hér skyldi reynt að setja upp kerfi sambærilegt því sem þekkist í nágrannalöndunum, til að styðja við flutninga.

Ég verð að lýsa því yfir að ég get ómögulega sætt mig við þessa þróun og mun reyna að hafa áhrif á að þessi vinna verði þróuð áfram til að ná fram þeim markmiðum sem ég hef lýst hérna.