141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun. Ég tek undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að það er dapurlegt að lesa þetta frumvarp. Ég stóð í þeirri trú við afgreiðslu síðustu fjárlaga að við værum að taka þar skref í þá átt að auka jöfnun á flutningskostnaði um landið vegna þess að kostnaður atvinnufyrirtækja sem eru hvað fjærst höfuðborgarsvæðinu er óhóflega mikill, eins og fram hefur komið, og ég hélt að við værum að jafna lífsgæði og veita atvinnurekendum jöfn tækifæri eða jafnari tækifæri hvar sem þeir eru á landinu. Eins og við vitum hefur verið mjög þungt fyrir fyrirtæki fjærst höfuðborgarsvæðinu að standa undir þessum mikla flutningskostnaði.

Í þessu frumvarpi — vel að merkja er ekki byrjað að greiða út úr þessu kerfi — er strax komin aðhaldskrafa upp á 3,5 millj. kr. Ef við mundum nú taka verðlagsþróun inn í þá upphæð erum við að tala um 6–10% niðurskurð með tilliti til verðlagsbreytinga, sem eru ekki góð skilaboð. Ég stóð í þeirri trú að við værum að hefja metnaðarfulla vegferð til að koma til móts við atvinnulíf á landsbyggðinni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það hafi verið skoðað í ráðuneytinu að Suðurfirðir eða suðausturhorn landsins kæmi inn í þennan 20%-flokk. Það er mjög löng vegalengd frá Suðurfjörðum Austurlands og frá Hornafirði á höfuðborgarsvæðið. Var það eitthvað rætt? Ég vonast til þess að við náum að breyta þessu máli í meðförum Alþingis, eins og við gerðum í fyrra. Þá var meðal annars norðausturhorn landsins sett inn í þennan 20%-flokk, sem ég held að hafi skipt miklu máli. Ég mundi líka vilja skoða hvort suðausturhornið ætti að falla þar inn. Það væri því gott að heyra frá hæstv. ráðherra hvort það hefði eitthvað verið skoðað.

Ég vara mjög við því að við leggjum af stað í vegferð til að jafna flutningskostnað, eins og hér er kveðið á um, með því að skera þennan málaflokk niður. Ég vil fyrir hönd okkar framsóknarmanna mótmæla því. Ég held að það sé mjög slæm byrjun á þessu kerfi. Eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson benti á þá náðum við þverpólitískri sátt hér í fyrra um þetta mál og þess vegna mundi ég gjarnan vilja að nefndin færi yfir það og jafnvel fjárlaganefnd sem er núna að skoða fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Við erum reyndar að tala um greiðslur seinna í ferlinu en ég veit að þetta kerfi á líka stuðning þar.

Ég hvet hæstv. ráðherra sem ég veit að er velviljaður þessu máli til að standa í lappirnar með okkur hinum. Það sýndi sig í störfum þingsins í fyrravetur þegar við náðum þverpólitískri lendingu hvað slík samstaða skiptir miklu máli. Ég vara við því að við förum að pota eitthvað í þetta mál með því að skera niður í svo gríðarlega mikilvægu máli sem snýr að flutningskostnaði fyrir atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni. Við þurfum að standa vörð um þá starfsemi sem þar er. Það er gríðarlega mikil auðlind að eiga öflugt atvinnulíf vítt og breitt um landið. Það frumvarp sem við samþykktum í fyrra var viðleitni í þá átt og þess vegna þykir mér miður að sjá að menn ætla strax að skera niður í þessum málaflokki.

Í góðu sagt þá hvet ég hæstv. ráðherra til að standa með okkur að því að vinda ofan af þeirri aðhaldskröfu sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Ég veit að fyrirtæki í hinum dreifðu byggðum, sem eru hvað lengst frá höfuðborgarsvæðinu, eiga sér málsvara á Alþingi. Þær byggðir hafa þurft að heyja gríðarlega mikla varnarbaráttu á undangengnum árum. Það er því mikilvægt að við vöndum okkur núna fyrir áramót og breytum þessu frumvarpi í jákvæðari átt fyrir þessa atvinnustarfsemi. Um leið og ég segi það vil ég inna hæstv. ráðherra enn og aftur eftir því hvort hann hafi skoðað hvort fyrirtæki á suðausturhorni landsins falli í þennan 20%-endurgreiðsluflokk vegna þess að varnarbarátta á suðausturhorni landsins hefur ekkert verið minni í byggðalegri tengingu en á Vestfjörðum eða norðausturhorni landsins. Það er því eðlilegt að við spyrjum hvort það sé ekki ákveðið réttlætismál að sérstaklega verði horft til fyrirtækja á því svæði.