141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna jákvæðni hæstv. ráðherra. Ég skal benda honum á hvar væri hægt að ná í peninga í þetta fyrir næsta ár. Við gætum til dæmis farið í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og beðið með grænkun fyrirtækja og annað slíkt í eitt, tvö ár og sett þá peninga í flutningsjöfnun á landsbyggðinni sem festir búsetu og sparar kostnað fyrir bæði ríkissjóð og landið í heild sinni til framtíðar. Ég held að það væri skynsamlegri ráðstöfun á fjármunum að jafna flutningskostnað betur en að fara í gæluverkefni sem sum koma fram í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Ég heiti á hæstv. ráðherra að ef hann er tilbúinn til að beita sér fyrir því þá mun ég standa algjörlega við hliðina á honum í því máli og reyna að hafa áhrif þó að takmörkuð séu innan stjórnarandstöðunnar.