141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[14:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Reyndar er hér ekkert komið inn á foreldraorlofið sem slíkt þótt ekki væri vanþörf á að ræða það ítarlega. Við erum ekki enn búin að leysa vandamál unga mannsins eða ungu konunnar sem fæðast hér á landi og eru send út í heim níu mánaða gömul vegna þess að kerfið gerir ráð fyrir því að foreldrar geti verið í fæðingarorlofi í níu mánuði. Þetta frumvarp lengir þann tíma og tekur eitthvað mið af þessu, en við þurfum endilega að fara að leysa þetta vandamál varanlega og að atvinnulífið, Fæðingarorlofssjóður og fólkið sjálft, foreldrarnir, vinni að því að börnin okkar fái eins gott atlæti og hægt er fyrstu mánuðina og fyrsta árið sem þau lifa.

Árið 2000 lagði Sjálfstæðisflokkurinn, sem þá var í ríkisstjórn, fram frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof, þau lög sem við ræðum hér. Þau voru geysilega mikil framför í jafnréttisátt. Þá áttu allir að fá 80% af launum í fæðingarorlofi. Ég taldi það reyndar vera of hátt, 75% væri kannski nóg. En þetta var án hámarks, það var ekkert þak á launin, og meginástæðan á bak við það var að gera karlmenn jafndýra og konur fyrir atvinnulífið. Það gleymist nefnilega að þegar starfsmaður hættir störfum, og þetta hef ég sagt áður, frú forseti, kostar það fyrirtækið heilmikið. Það þarf að ráða nýjan starfsmann. Það þarf að ráða við allar villurnar sem hann gerir og síðan þegar gamli starfsmaðurinn kemur aftur vill sá nýi halda áfram. Þessu fylgja alls konar vandræði og kostar helling. Ég hugsa að það kosti ein eða tvenn mánaðarlaun að ráða í staðinn fyrir einhvern sem hættir. Þess vegna voru konur miklu dýrari en karlmenn þegar þær gátu einar tekið fæðingarorlof hér áður fyrr.

Lögin sem tóku gildi árið 2000 voru sett til að gera karlmenn jafndýra og konur, þ.e. feður fengu rétt til fæðingarorlofs og rétt til þriggja mánaða orlofs sem bara þeir einir gátu tekið. Þeir voru eiginlega þvingaðir í fæðingarorlof. Það skemmtilega gerðist, frú forseti, að eftirspurnin varð mjög mikil. Mjög margir feður fóru í fæðingarorlof þannig að frægt var um alla veröld. Feður, karlmenn, kynntust börnunum sínum. Ég held að það hafi kannski verið mesti og stórkostlegasti árangurinn af þeirri lagasetningu.

Svo var farið að setja hámark á launin. Það var vegna þess að mönnum ofbauð þegar einhver maður sem var með 2 milljónir á mánuði fékk 1,6 í bætur, og menn sögðu: Hvað hefur hann að gera við svona háar bætur? Öfundarsjónarmiðið kemur upp. Af hverju er verið að borga 1,6 miljónir í bætur? Menn gleyma því að þetta er fjármagnað með tryggingagjaldi. Tryggingagjald var á þeim tíma að mig minnir 5% og 5% á 2 milljónir eru einmitt 100 þús. kr. á mánuði. Gjaldið fór reyndar í sitthvað fleira, en þessi maður sem var með 2 milljónir á mánuði var búinn að borga lifandis býsn inn í kerfið. Þess vegna var þetta ekkert óeðlilegt. En um leið og menn settu hámarkið, vegna þess að þeim ofbauð hvað þetta var hátt, sögðu þeir að það væri jafnrétti milli karla og kvenna nema í hæstu laununum. Það sem gerðist nefnilega var að karlmenn fóru síður í fæðingarorlof, ef þeir voru með há laun og hefðu tapað miklu. Þá varð þessi dýri maður allt í einu ekki eins dýr fyrir fyrirtækið af því hann fór ekkert, það þurfti ekki að ráða í staðinn fyrir hann og annað slíkt.

Þetta hámark hefur verið sífellt verið að lækka. Menn hafa í sparnaðarskyni lækkað það og nú er búið að eyðileggja jafnréttisvinkilinn í dæminu. Það er búið að eyðileggja hann með því að skerða hámarkið út af neyð, mundi ég segja. Ég skil það alveg, það vantaði peninga í ríkissjóð, en nú virkar jafnréttisvinkillinn ekki lengur. Mér finnst hækkunin sem hér er lögð til mjög metnaðarlaus. Í staðinn er verið að lengja tímann. Þá er spurningin: Er verið að hugsa um barnið eða hugsa um jafnréttið? Ég held að það sé aðallega verið að hugsa um barnið með því að lengja tímann, leysa þann vanda sem ég talaði um í upphafi, en jafnréttið er látið sigla sinn sjó.

Það þarf nefnilega að hækka þessi mörk verulega. Karlmenn hafa oft á tíðum hærri laun en konur, því miður, það er enn þá allt of mikið ójafnrétti milli kynja. Þeir telja sig ekki hafa efni á því að taka þessa þrjá mánuði sem þeir eiga rétt á og enginn annar tekur. Þess vegna hefur þátttaka feðra í fæðingarorlofi minnkað stöðugt, en ég þekki ekki tölfræðina nákvæmlega. Áhrifin af upphaflegu lögunum voru tvenns konar, í fyrsta lagi urðu karlmenn jafndýrir fyrir atvinnulífið og konur. Það eru þeir ekki lengur, þeir hætta ekki, þeir kosta ekki fyrirtækin það að þurfa að ráða nýjan mann í staðinn og allt það. Þar af leiðandi er hægt að borga þeim hærri laun, frú forseti, af því þeir eru ódýrari að því leyti. Í öðru lagi kynntust þeir börnunum sínum, en núna dregur úr því. Þeir kynnast ekki börnunum sínum sem ég held að til frambúðar sé meira atriði en að koma á jafnrétti. Hvort tveggja er mjög mikilvægt.

Þannig að við stöndum frammi fyrir þessari spurningu: Eigum við að hugsa um barnið, leysa vanda unga mannsins og ungu konunnar sem eru nýfædd og fara að heiman níu mánaða gömul, en samkvæmt þessu frumvarpi þegar þau eru 12 mánaða, eða jafnréttið? Það er spurning hvort menn vilja.

Svo er kannski athyglisverðast að horfa á blaðsíðu 12, um útgjöldin. Það verða nánast engin útgjöld á næsta ári, frú forseti. Hvenær verða útgjöldin? Þau verða árið 2014, alveg sérstaklega 2015, 2016, 2017. Hver skyldi eiga að glíma við þann vanda, frú forseti? (Gripið fram í: Við.) Það er næsti fjármálaráðherra, hver sem hann verður. Það eru næstu skattgreiðendur. Það eru næstu fjárlög sem koma þar inn. Þá bætist við öll risagötin sem við ræddum hérna í umræðu um fjárlögin sem eru enn inni í kerfinu en ekki hefur verið tekið á, eins og A-deild LSR o.s.frv., ég ætla ekki að fara að tala um það.

Þetta er enn eitt dæmið um hugsun þar sem áætlunin er framhlaðin, eða vanhlaðin að framan. Það eru lítil útgjöld fyrst, svo kemur þetta allt í framtíðinni fyrir næstu ríkisstjórn, á næsta kjörtímabili, eftir kosningar, þá á skattgreiðandinn að borga. Í dag er tekið á móti honum og sagt: Til hamingju, hér er nýtt fæðingarorlof og það á að lengja tímann. Það er allt gott um það að segja, það eru teknar myndir og menn fá rós í hnappagatið og geta jafnvel fengið atkvæði í komandi kosningunum út á þetta. Þetta er ekki eina dæmið. Þau eru fjöldamörg. Þetta er dæmigert kosningafrumvarp.

Þannig að ég vara dálítið við þessu. Það getur vel verið að næsti fjármálaráðherra breyti þessu ef ríkisbúskapurinn hressist ekki mikið — en hann hressist náttúrlega ef sjálfstæðismenn taka við, ég reikna með því að þá batni ýmislegt. Kannski hafa menn efni á þessu, en það er dálítið varasamt að lofa einhverju í dag og borga það á morgun. Það þekkjum við sem höfum rekið heimili.