141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

lög um framhaldsskóla.

[14:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Auðvitað get ég tekið undir þau meginsjónarmið sem hún fór hér yfir og birtast í lögunum sem við störfum eftir.

Hv. þingmaður spyr hvort ástæða sé þá til þess að flýta gildistímanum. Það er rétt að gildistíma laganna var frestað. Það var ekki síst út af því að þessum lögum áttu að fylgja hátt í 2 milljarðar kr. sem áttu að koma inn sem innspýting í framhaldsskólastarfið og áttu að nýtast í alla þá þróunarvinnu sem átti að fylgja lögunum. Eins og hv. þingmanni er kunnugt komu þessir 2 milljarðar ekki inn í skólakerfið. Nær væri að segja að 2 milljarðar hefðu verið teknir út úr skólakerfinu í þeim niðurskurði sem hér hefur staðið yfir á þremur árum og því var gripið til þess ráðs að fresta gildistökunni.

Við höfum að sjálfsögðu unnið samkvæmt lögunum. Af því að hv. þingmaður nefnir iðn- og starfsnám sérstaklega er rétt að geta þess að gríðarleg stefnumótun hefur staðið yfir og hún verður kynnt eftir áramót í mjög góðu samráði við alla hagsmunaaðila. Nú um áramótin verður opnaður gagnagrunnur þar sem finna má nýjar námsbrautir og áfangalýsingar og þar hlaðast inn áfangalýsingar þannig að hugsanlega kann að koma til þess að þessi lög geti tekið gildi fyrr en nú er gert ráð fyrir. Það er unnið að þessum markmiðum laganna á öllum vígstöðvum, hvort sem snýr að iðn- og starfsnámi eða hönnun nýrra námsbrauta. Ég nefni að yfir 1000 áfangalýsingar eru komnar inn í þennan grunn sem verður opnaður um áramótin.

Í þriðja lagi langar mig að nefna brottfallið þar sem við höfum farið í sérstakt verkefni með OECD, erum að læra af reynslu annarra þjóða og erum núna í tilraunaverkefni með þremur skólum. Ég útiloka ekki að þær aðstæður kunni að koma upp að það verði hægt að flýta þessari gildistöku en hér verður að hafa í huga þær efnahagslegu forsendur sem réðu því að þessu var frestað til 2015.