141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:00]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir ágæta og rökfasta ræðu, þó að ég sé vissulega ekki sammála öllu sem kom fram í máli hans. Mig langar að spyrja um það sem hann lagði ríka áherslu á í ræðu sinni en kom líka fram í andsvari við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, mismuninn á vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum.

Sú furðulega niðurstaða sem kemur út úr þessari sátt og öllu ferlinu, látum liggja á milli hluta hvort það sé pólitískt eða ekki, er að búið er að færa allan þungann í virkjanaframkvæmdum næstu ára frá vatnsaflsvirkjunum, sem við þekkjum og höfum áratuga reynslu af, yfir á jarðvarma, sem við erum á þessum árum sífellt að verða sannfærðari um að það séu nokkrir óvissuþættir sem við þurfum að vita betur um.

Því spyr ég hvað honum finnist um það og hvort hann sé því sammála sem kom fram í andsvari hans varðandi það hvort meiri sátt væri um að fleiri vatnsaflsvirkjanir væru þarna inni, hugsanlega þá í stað annarra.

Hitt efnið sem ég ætlaði að spyrja um, af því að ég veit að hv. þingmaður er mikill landsbyggðarþingmaður og styður uppbyggingu í dreifbýli, er að Skaftárhreppur sem er mjög veik byggð sem byggir á ferðaþjónustu og landbúnaði fyrst og fremst, hefur staðið mjög höllum fæti. Hreppurinn hefur í vinnu sinni við aðalskipulag og í sátt innan samfélagsins lagt áherslu á að geta stækkað Vatnajökulsþjóðgarð, sem var gert, og setti síðan inn hugmyndir um virkjunarkosti í aðalskipulag sitt.

Hugmyndirnar um Hólmsárvirkjun, sem virðist vera orðin nokkuð víðtæk sátt um, ekki algjör í samfélaginu en nokkuð víðtæk, er hent hér út vegna mistaka. Samt hafði ráðherranefndin nægan tíma, samt hafði nefndin nægan tíma til þess að velta fyrir sér þessum gögnum. Ég spyr vegna þess að í verndar- og nýtingaráætluninni, í samræmi við markmið laga nr. 48/2011 þá á að taka tillit til meðal annars efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa á nýtingar og þar með talið verndar, hvort þessi ákveðna virkjun hefði ekki átt að fá (Forseti hringir.) veglegri sess til uppbyggingar atvinnulífs á þessu svæði.