141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa svarað spurningum mínum tiltölulega skýrt; tillagan er lítils eða einskis virði í fyrsta lagi vegna þeirra sex kosta sem breyttust frá formannahópnum til þingsályktunartillögunnar. Í öðru lagi er hv. þingmaður ekki sammála nefndaráliti 1. minni hluta, þ.e. hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Það er ósköp heiðarlegt og ágætt að fá það frá þingflokksformanni Framsóknar að hann er sumsé ekki sammála því áliti. Hann telur að gallar séu það miklir á tillögum formannahópsins og vinnu verkefnisstjórnar væntanlega — og þá faghópanna líka, a.m.k. varðandi jökulárnar í Skagafirði, að ekki sé hægt að taka undir nefndarálit 1. minni hluta í umhverfisnefnd. Hv. þingmaður segir í þriðja lagi að ráðherrarnir hafi ekki átt að skipta sér af þessu, þ.e. annaðhvort hafi þeir ekki átt að taka mark á þeim umsögnum sem bárust við drögin að þingsályktunartillögu sem kom frá formannahópnum, eða að þær umsóknir hefðu alls ekki átt að verða og málið hefði átt að afgreiða í einhverjum bakherbergjum (Forseti hringir.) sem þingmanninum þættu betri en almennt umsagnarferli þar sem almenningur fær að segja hug sinn.