141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna allt sem hægt er til þess að breyta þeirri stefnu sem hér er boðuð vegna þess að ég tel að hún muni seinka uppbyggingu og því að Ísland nái kröftum sínum á ný. Þá er ég ekki að segja, þannig að það sé tekið fram, að fara þurfi í þessar virkjanir til þess að virkja fyrir stóriðju eða eitthvað sem er búið að tala um neikvætt, sem ég er ekki endilega sammála. Við þurfum hins vegar að nýta auðlindirnar til að skapa atvinnu í sem fjölbreyttastri mynd. Ég vona svo sannarlega að þegar við förum að virkja og nýta orkuna getum við fundið eitthvað annað en það sem við þekkjum í dag, eitthvað nýtt sem skapar meiri tekjur til samfélagsins þannig að við setjum ekki öll eggin í sömu körfuna. Til þess verðum við að hafa orku til reiðu. Við verðum að geta sýnt fram á að við getum framleitt og búið til það umhverfi sem þessi fyrirtæki sækjast eftir en ég hef áhyggjur af því að það gerist ekki.