141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða spurningu vegna þess að þetta er ekki eina málið sem ríkisstjórnin kemur fram með korteri fyrir kosningar. Það eru örfáar vikur fram að kosningum og ætlast er til þess að þingmenn afgreiði hér stórmál fram í tímann sem bindur komandi ríkisstjórn. Ég er líka að vísa í fjárlagafrumvarpið sem liggur núna fyrir og er loforðavíxill langt inn í framtíðina.

Hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon er búinn að taka lán hjá stóriðjunni fram til ársins 2018, hvorki meira né minna. Hann er búinn að taka inn í ríkissjóð skatttekjur af stóriðjunni svo langt fram í tímann, svo mikill umhverfisverndarsinni er hann eða hitt þó heldur. Voru það ekki flokksmenn hans úr Vinstri grænum sem kölluðu: Við viljum kálver en ekki álver? Mig minnir það. Svo getur þáverandi hæstv. fjármálaráðherra tekið risastóran víxil hjá stóriðjunni.

Auðvitað er óásættanlegt að þessi mál skuli koma inn í þingið á lokadögum þess. Það eru innan við 30 dagar eftir af þingstörfum, svo eru kosningar og nýr meiri hluti myndast í þinginu.

Ég verð að svara fyrirspurninni á þann hátt að verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt á Alþingi á lokadögum þessa kjörtímabils mun ég verða fyrsta manneskjan og örugglega minn flokkur til að taka þessa áætlun upp og breyta henni til þess horfs sem samstarfshópurinn komst að niðurstöðu um vegna þess að þetta ferli er búið að standa yfir í 13 ár. Allir stjórnmálaflokkarnir á Íslandi, Vinstri grænir, Samfylking, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa setið í ríkisstjórn einhvern tíma á þessu tímabili og eru að mínu mati bundnir af (Forseti hringir.) ákvörðunartöku starfshópsins og komu þeirra að þessu samkomulagi.