141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og það er virðingarvert að annar af framboðskandídötum til formanns Samfylkingarinnar kemur hér upp og viðrar skoðanir sínar hlýtur það að kalla á að hinn frambjóðandinn komi líka og (Gripið fram í.) skýri sínar skoðanir. Svo það sé sagt, vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað, þá var það efnahagsstefna Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að stækka bankana, að þeir skyldu halda hér og eflast. Sú stefna beið eftirminnilegt hrun í október 2008.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem ætlar sér mikið í pólitík, hvernig hann sjái fyrir sér hagvöxt næstu ára ef hann á ekki að byggja á því að nýta náttúruauðlindir eins og orkugeirann. Þær hugmyndir sem eru lagðar hér fram, eins og fram hefur komið í umræðunum í dag og áður, byggjast að því er virðist á því að taka alla auðveldustu, arðsömustu virkjunarkostina út, vatnsaflsvirkjunarkostina. Þó hefur ríkt veruleg samstaða um kosti eins og neðri hluta Þjórsár, Hólmsárvirkjun og (Forseti hringir.) nokkra aðra. Í staðinn eru skildir eftir jarðvarmakostir á Reykjanesi sem (Forseti hringir.) eru mjög umdeildir og munu taka mun lengri tíma. Hvernig ætlar hv. þingmaður að byggja upp hagvöxt næstu (Forseti hringir.) ára?