141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom svo sem ekkert svar um hvernig við ætlum að byggja upp hagvöxtinn á næstu árum, heldur var gripið til möntrunnar um Kárahnjúka. Við getum tekið miklu lengri umræðu um það en ég get á einni mínútu og einnig um þenslu bankakerfisins, sem ég minntist aðeins á fyrst í andsvari mínu. Hvernig ætlar hv. þingmaður að byggja upp hagvöxtinn ef það er ekki einmitt á breiðum grunni, með því að nýta náttúruauðlindirnar?

Ef við tökum umræðuna sem heyrðist hér á nokkrum stjórnarþingmönnum í dag að það væri búið að virkja nóg, við þyrftum ekki að virkja neitt meir. Ef Norðmenn segðu: Við eigum nóg af olíu á bílana. Við getum hætt að leita að olíu. Byggist ekki þessi ótrúlegi hagvöxtur í Noregi meðal annars á því að þeir nýta náttúruauðlindir sínar? Hér erum við með nánast óendanlegar, ekki fullkomlega óendanlegar, en mjög miklar náttúruauðlindir sem við getum nýtt í verðmætasköpun, í atvinnusköpun, í breiðu sviði atvinnugreina. Ekki bara orkugeirans, ekki bara sjávarútvegs, ekki bara skapandi greina þar sem þekkingariðnaðurinn verður drifkrafturinn, heldur allra. Hér virðist (Forseti hringir.) Samfylkingin ætla að segja pass. Við ætlum að skila auðu. Við ætlum ekki (Forseti hringir.) að nota orkugeirann til þess að nýta og drífa áfram (Forseti hringir.) atvinnusköpun og hagvöxt í landinu.