141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vísaði til þess í ræðu sinni að það ætti meðal annars að taka tillit til erfiðs atvinnuástands og ástands mála á einstökum svæðum. Það sem ég held að menn þurfi að horfa á í því sambandi eru í rauninni lögin sem þingsályktunartillagan byggist á. Í fyrstu grein þeirra laga segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Þegar við skoðum málið í því ljósi annars vegar og hins vegar því að það er enginn virkjunarkostur fyrir vatnsafl í hagkvæmnisflokkunum 1. flokkur, 2. flokkur og 3. flokkur í orkunýtingarflokki, er í rauninni búið að ýta til hliðar (Forseti hringir.) öllu því sem vikið er að í lagatextanum og snýr að hagkvæmni og (Forseti hringir.) og arðsemi ólíkra nýtingarkosta.