141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu um þetta mikilvæga mál. Mig langar einfaldlega að fagna þeirri afstöðu sem fram kemur í ræðu þingmannsins um að Framsóknarflokkurinn hafi áhuga og vilja til að standa við það ferli sem var sett af stað árið 1999 og klára það, að því er mér heyrðist, á faglegum forsendum líkt og meiningin var að gera. Margoft hefur verið skipt um ríkisstjórnir frá því árið 1999, þ.e. allir þeir stærstu fjórir flokkar sem starfa á þinginu í dag hafa komið að málinu. Þrátt fyrir að menn úr öllum flokkum hafi lýst því yfir að þeir vilji fylgja og styðja þetta faglega ferli gerist það á lokametrunum í því stóra, umfangsmikla og mikilvæga máli að við förum aðeins út af sporinu. Eins og hv. þingmaður sagði lýsti ég því vissulega yfir í ræðu minni og ég hef enn trú á því að menn geti sest niður og komist að skynsamlegri niðurstöðu um að fylgja hinum faglegu forsendum.

Nú er hv. þingmaður þingreyndur maður og hefur verið hér mun lengur en ég. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvaða leið hann sjái til að menn taki hlé á þessari umræðu, setjist yfir málið að nýju og komi því í réttan farveg. Hvaða leið sér hv. þingmaður til að svo megi verða og er hann ekki sammála mér um að við eigum þrátt fyrir allt að vera bjartsýn fyrst þingmenn allra flokka hafa í gegnum tíðina gefið út þær yfirlýsingar að hin faglegu sjónarmið eigi að ráða? Eigum við ekki að vera bjartsýn og hugsa um það þannig að menn hljóti þá að ætla að sjá að sér og reyna að taka einn lokasnúning á því núna fyrir áramótin, hvort ekki sé hægt að ná slíkri lendingu?