141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir þessa yfirgripsmiklu ræðu og hvernig hann nálgast viðfangsefnið. Ég held að hv. þingmaður komist einmitt að kjarna málsins í umfjöllun sinni. Hv. þingmaður gerir það kannski ekki á fræðilegan hátt eða greinir ákveðna þætti heldur fjallar um málið eins og það blasir einfaldlega við almenningi í landinu og íbúum þessara svæða. Það eru fáir þingmenn sem eru jafnduglegir við að halda tengslum við sín svæði og hv. þingmaður, sem í framboðstilkynningu sinni sagði að fáir á Alþingi gætu státað af því að vera eins og heimamenn í hverju þorpi í kjördæmi sínu.

Þannig skil ég einmitt hv. þingmann þegar hann talar um að þessir ágætu stjórnarflokkar, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylking, séu að tilkynna að þeir ætli ekki að bjóða fram í Suðurkjördæmi. Ef við skoðum þessa tillögu er það einmitt svo að þær færslur sem hafa átt sér stað frá faglega matinu hafa allar orðið í kjördæmi hv. þingmanns. Þá hljóta margir að spyrja sig: Hvers eiga íbúar kjördæmisins að gjalda? 5–6 þús. störf, 270 milljarðar, 4–6% hagvöxtur. Ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað þetta snertir og fagna nálgun hans á viðfangsefninu.

Við hv. þingmaður sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd og sá sem hér stendur mat það strax svo að talsmaður málsins væri ekki tilbúinn til neinnar málamiðlunar. Hvað finnst hv. þingmanni um starfið í umhverfisnefnd í þessu máli? Getur hv. þingmaður kannski farið aðeins yfir það hvernig sú vinna blasti við hv. þingmanni?