141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það eru engin rök fyrir því að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið.

Svo vil ég minna þingheim á að þjóðin var aldrei spurð um hvort hefja ætti viðræður, sem hefði að sjálfsögðu verið eðlilegt (VigH: Kjósa.) — eða kjósendur. Síðan vil ég leiðrétta hv. þm Magnús Orra Schram, það er ekkert í samningsafstöðu varðandi dýraheilbrigði um að Íslendingar krefjist eins eða neins. Það er vandinn við samningsafstöðuna að ekki eru settar fram nógu skýrar kröfur. Þetta er moðsuða sem menn geta túlkað út og suður.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram áðan varðandi fjárlagagnefndina og þær upplýsingar sem við höfum fengið úr þeirri nefnd, ég ætlast til þess að hæstv. fjármálaráðherra verði gert að koma til þings og gera þingheimi grein fyrir því hvers vegna hann kemur svona fram við þingmenn og hvers vegna hæstv. ráðherra svarar ekki skilmerkilega í samræmi við þingsköp. Það hlýtur í það minnsta að vera tilefni til að ráðherrann komi hér og geri hreint fyrir sínum dyrum. Síðan hljóta forsætisnefnd og forseti þingsins að velta fyrir sér að beita einhverjum viðurlögum gagnvart ráðherra því að ég tel að þingmenn hafa verið víttir fyrir minni sakir en þessa.

Ég vil að endingu fagna því sem ég las um í fjölmiðlum, þ.e. að sífellt fleiri einstaklingar, fræðimenn og stjórnmálamenn virðist nú taka undir tillögu okkar framsóknarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd um að skynsamlegt geti verið fara þá leið að setja þak á verðtrygginguna. Ég hlýt þá að spyrja hvort ekki sé akkur í því fyrir þingið að afgreiða málið úr nefndinni, því að það er mikill akkur fyrir heimilin í landinu og þjóðina, núna þegar mikill sprengur virðist vera á sumum málum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)