141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Vikið hefur verið að því að enn einn blaðamannafundurinn sé fram undan hjá ríkisstjórninni til að greina frá afrekum hennar í atvinnumálum. Stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum er svona blaðamannafundapólitík þar sem verið er að segja frá því hvað okkar bíði stórkostlegir tímar vegna einhvers átaks sem hæstv. ríkisstjórn er að beita sér fyrir.

En svo fjölgar ekkert störfunum, fólkið flytur úr landi, fólk hverfur af vinnumarkaði. Það er auðvitað ekki að undra. Skoðum nokkra helstu þætti atvinnumála okkar.

Í fyrsta lagi hefur sjávarútveginum verið haldið í fjögur ár núna í algerum heljargreipum mikillar óvissu. Sú óvissa hefur dregið úr fjárfestingum og framförum í greininni sem koma okkur í koll nú þegar erfiðleikar steðja að á fiskmörkuðum í Evrópu og víðar.

Í öðru lagi er það rammaáætlun. Þegar hún er lesin blasir við að hún mun leiða til þess að ekki verða framkvæmdir sem tengjast vatnsaflsvirkjunum og þar með ekki iðnaðaruppbygging sem gæti fylgt í kjölfarið. Þegar nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er grannt skoðað blasir sömuleiðis við að þar er enn fremur verið að setja stórastopp á framkvæmdir á jarðhitasvæðum. Í nefndarálitinu er slegið á svo marga varnagla og varað svo við jarðhitavirkjunum að þær verða gersamlega ófærar.

Í þriðja lagi er það ferðaþjónustan sem hefur verið vaxandi atvinnugrein hér á landi, vaxtarbroddur sem margir hafa horft til. Staðan þar er sú að dengja á yfir þessa grein á næsta ári og næstu árum milljörðum króna í auknum álögum. Á sama tíma hreykja hæstv. ráðherrar og stjórnarliðar sér af því að í fjárlögum séu einhverjar milljónir króna veittar til uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum og öðru slíku. Með öðrum orðum, hrammur ríkisstjórnarinnar hrammsar til sín milljarða króna út úr ferðaþjónustunni og skilar svo til baka með litla fingri fáeinum milljörðum. Síðan er sagt: Sjáið þið hvað við erum góð við ferðaþjónustuna. Sjáið þið hvað við höfum mikinn skilning á þörfum ferðaþjónustunnar af því að við ætlum að leggja einhverjar milljónir (Forseti hringir.) í uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Svo er það byggingariðnaðurinn vegna byggingarreglugerðarinnar, (Forseti hringir.) óvissan sem umlykur landbúnaðinn vegna ESB-umsóknarinnar. Ég ætlaði að hafa þessa upptalningu lengri en hef ekki tíma til þess.

(Forseti (ÁRJ): Það er ólag á klukkunni hér … (Gripið fram í: Það er ólag á fleiru í þessum sal.) )