141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum nokkuð sammála um hvernig beri að vinna verkið. Það er svo mikið í húfi. Ég hræðist það mikið, ég viðurkenni það, að þetta sé bara rammaáætlun núverandi stjórnvalda. Þó að ég muni ekki sitja á næsta þingi og hef kannski ekkert um þetta að segja, það gefur augaleið, en ef ég hefði ætlað mér að reyna að ná aftur endurkjöri og gefa kost á mér og hefði ég náð kjöri hefði ég litið svo á að hendur mínar væru ekki bundnar af þessari rammaáætlun, hún væri bara rammaáætlun núverandi stjórnvalda. Þetta hræðist ég.

Hv. þingmaður nefnir líka tillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram um að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar. Ég mun styðja þá tillögu. Ég er sammála hv. þingmanni um að það væri þess virði að fara þá leið, það er alla vega mín skoðun, draga djúpt andann og reyna að ná sátt, en það virðist því miður ekki vera í boði. Þess vegna hræðist ég að þetta verði bara rammaáætlun núverandi stjórnvalda og næstu stjórnvöld muni ekki telja sig bundin af henni.