141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom akkúrat að kjarna málsins. Þegar fyrsta verkefnisstjórnin var sett á fót, árið 1999 held ég, um þessa rammaáætlun þá fóru menn þvert á flokka af stað í þessa vegferð. Menn ætluðu að láta þetta verkefni í hendur okkar helstu sérfræðinga til þess að vega það og meta faglega hvaða virkjunarkosti ætti að nýta og hvað ætti að vernda. Nú er þessari 13 ára vegferð að ljúka og á síðustu metrunum ákveða ráðherrar Vinstri grænna að setja pólitísk fingraför á málið með því að krukka í niðurstöðu okkar helstu sérfræðinga. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að benda á þetta.

Í ofanálag langar mig að spyrja hv. þingmann af því að hann er fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Þar hef ég setið í nokkuð mörg ár og mikil umræða oft verið í nefndinni um hvernig við getum mögulega aukið fjárfestingu í íslensku samfélagi, til hvaða aðgerða við eigum að grípa. Nú hefur ráðgjafarfyrirtækið Gamma metið það svo að með því að færa þessa sex virkjunarkosti úr nýtingu yfir í bið muni möguleg fjárfesting upp á 270 milljarða kr. á fjögurra ára tímabili ekki verða að veruleika. Bíddu, þetta rímar einhvern veginn ekki við það sem við erum að ræða og höfum rætt í gegnum árin í efnahags- og viðskiptanefnd, hvernig við komum fjárfestingu af stað í samfélaginu. Hvernig aukum við tekjur ríkissjóðs með því að auka fjárfestingu? Hvernig aukum við tekjur sveitarfélaga? Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort menn séu þá ekki og ríkisstjórnin komin í mótsögn við sjálfa sig því að það eru haldnir blaðamannafundir með reglulegu millibili þar sem fjárfestingaráætlun er boðuð og að auka eigi fjárfestingu í samfélaginu. Erum við ekki að horfa í einhverja allt aðra hátt ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt?