141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af meðlaginu til stóriðjunnar. Það sér náttúrlega hver maður þegar hugsað er út í það að þetta gengur ekki upp, það getur ekki gengið upp. Við erum með 300 þús. manns í frekar stóru landi og það stemmir ekki, alveg sama hvernig það er hugsað, að almenningur hafi greitt niður orkuframleiðslu til stóriðjunnar. Reyndar höfum við byggt upp orkufyrirtæki okkar og dreifinet út frá hagnaðinum af stóriðjunni. Mér finnst það ábyrgðarhluti ef menn leggja hlutina upp með öðrum hætti því að það er einfaldlega ekki rétt.

Varðandi það hversu takmarkaðar auðlindirnar eru: Ef til dæmis djúpboranir mundu takast þá mundum við að stækka mengið verulega. Það hefur ekki tekist enn þá en vonandi mun það einhvern tíma takast. Það mun ekki takast nema við rannsökum það og skoðum.

Varðandi valkostina þegar við seljum orku þá hef ég til dæmis verið mjög skeptískur á sæstrenginn fram til þessa en það er hins vegar ýmislegt sem bendir til þess, í breyttu umhverfi á orkumarkaði í Evrópu, að það gæti farið saman að byggja í upp atvinnustarfsemi hér og selja um leið ákveðna toppa til Evrópu. Ég þekki það ekki, veit ekki hvort það hefur verið skoðað nægilega. Kosturinn við álver liggur í því að málmurinn er mjög umhverfisvænn, langumhverfisvænasti málmurinn. Hins vegar er spurning hversu mikið af álverum við eigum að vera með. Við höfum verið að skoða gagnaver. Gallinn við þau er að það er mikil vinna þegar eitt slíkt er byggt en síðan er lítil starfsemi í kringum það. Kísill og járnblendi mengar svo miklu meira (Forseti hringir.) en álver. Þetta eru allt saman kostir og gallar sem við þurfum að vega og meta og svo er spurning hvort það sé einhver möguleiki (Forseti hringir.) á stóriðju í garðrækt eða einhverju (Forseti hringir.) slíku. Ég þekki það ekki. (Forseti hringir.) Það hljómar vel.