141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði akkúrat fyrstu spurningunni í síðustu setningu ræðu sinnar varðandi það hvort hún teldi sig skuldbundna til að samþykkja eða fylgja þessari þingsályktunartillögu á næsta kjörtímabili. Mér heyrist að það sé rauður þráður í umræðunni hér, a.m.k. hjá þeim flokkum sem tilheyra ekki stjórnarflokkunum, að menn telja sig ekki vera bundna af þessari rammaáætlun, sem er miður vegna þess að fyrsti starfshópurinn fór af stað, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel, árið 1999 til að móta framtíðarstefnu í þessum mikilvæga málaflokki.

Við höfum rætt ýmsa þætti þessa máls og af því að hv. þingmaður er oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og þekkir þess vegna vel til atvinnumála þar, ekki síst í heimabæ sínum þar sem atvinnuleysi er hvað mest á landinu, þá langar mig að spyrja hvaða áhrif hún telji að það geti mögulega haft á atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ að fresta til að mynda þremur virkjunarkostum í Þjórsá, sem og öll þau umsvif sem mundu fylgja byggingu þessara virkjana. Það er búið að hanna öll mannvirki við Þjórsá. Getum við ekki slegið því föstu að við séum að fórna þúsundum starfa á einhverra ára tímabili? Eru það í raun og veru ekki mjög slæm skilaboð á erfiðum tímum þegar bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ og sveitarstjórnir á Reykjanesi eru að reyna að snúa vörn í sókn og fjölga störfum? Eru það ekki alveg sérlega slæm skilaboð frá ríkisstjórn Íslands að slá þessum framkvæmdum á frest? Verður það ekki forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar að setja kosti eins og Þjórsá aftur í nýtingarflokk?