141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú höfum við séð að aðilar sem hafa komið að þessu máli koma alls staðar að úr hinu pólitíska litrófi. Málinu var hrint úr vör af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Síðasta verkefnisstjórnin var skipuð af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni. Málið var síðan unnið áfram undir pólitískri forustu Samfylkingar og Vinstri grænna.

Við getum því sagt að allt ferlið litist af því að það var hafið upp úr pólitískum hjólförum. En nú er það lent aftur í þeim. Það er augljóst og ekkert hægt að deila um það, þess vegna ræðum við þetta svo ítarlega núna, að þessi mál eru í bullandi ágreiningi. Undan þeirri staðreynd getum við ekki vikist, það er staðan.

Það er því alveg rétt sem hv. þingmaður segir, þetta er ekki lengur rammaáætlunin, þetta er þeirra rammaáætlun. Það er það hættulega í málinu. Þá er eins og allur þessi bardagi, öll þessi vinna, allt sem við höfum lagt á okkur, allt það mikla traust sem byggðist upp í gegnum áratugi eða a.m.k. áratug, sé allt í einu bara horfið, því er ýtt út af borðinu, því er sópað burtu, það hverfur. Við erum komin í stöðu sem er allt of lík þeirri sem við vorum í þegar við hófum ferlið. Og nú þarf að taka slag um virkjun fyrir virkjun o.s.frv.

Það sem er svo alvarlegt er að þetta eru ekki bara skilaboð um að henda út þeim sex virkjunarkostum sem lagt er til í þingsályktunartillögunni heldur er í raun og veru, miðað við umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, verið að stöðva framkvæmdir við jarðhitavirkjanir líka, þetta er virkjanastopp. Það er auðvitað það sem vakir fyrir mönnum. Við þurfum að setja það í efnahagslegt samhengi við möguleika okkar á skynsamlegri orkunýtingu í sátt við umhverfið sem gæti haft í för með sér mikla verðmætasköpun. Það er verið að loka á það. Þá liggur fyrir að þessari leið við verðmætasköpun á Íslandi á að loka um ókomin ár.