141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við höldum hér áfram umræðu um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða og er þetta síðari umr. Mér finnst hún hafa verið mjög góð og það er eiginlega því að þakka að hv. formaður umhverfisnefndar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hefur gripið inn í umræðuna, svarað fyrirspurnum og komið sínum sjónarmiðum að. Því er ekki að heilsa með aðra stjórnarliða sem ég hefði viljað heyra meira í í umræðu því þegar spurningum er svarað þarf ekki að spyrja þeirra aftur og það er mjög jákvætt.

Ég veit að hæstv. umhverfisráðherra hlýðir á umræðuna en hann hefur verið spurður fjölda spurninga og það hefur ekki fengist svar við þeim heldur. Hann er sá sem flytur málið þannig að ég hefði talið að hann ætti nú að grípa inn í umræðuna, þ.e. ef menn vilja að hún fái í fyrsta lagi farsælan endi og í öðru lagi að hún gefi eitthvað af sér. Það hefur voða lítið upp á sig að vera að ræða hérna fram og til baka og spyrja og fá ekki svör.

Þannig er mál með vexti að ég hugsa að nánast engir tveir þingmenn hafi algjörlega sömu skoðun á því hvað eigi að virkja, hvað ekki og hvað eigi að vera í biðflokki. Hins vegar er það svo að menn eru alltaf tilbúnir til að slaka til í allri umræðu, það er bara þannig. Fólk er yfirleitt meira á hlið sátta og samninga en átaka. Ég til dæmis hefði hug á því að reisa Villinganesvirkjun í Skagafirði. Ég tel það vera mjög skynsamlega virkjun sem mundi bæta umhverfið. Ég sé fyrir mér seglbáta á vatninu, það er mjög fallegt þarna inni á milli fjallanna, en það eru ekki allir þannig og hv. þm. Jón Bjarnason varaði einmitt við því. Það hefði verið gaman að taka þá umræðu lengra en af því að ég náði ekki alveg hvað það var sem hann óttaðist, það var helst að eftir 70 ár mundi það fyllast af aur og breyta landslaginu fyrir framan en þá mætti náttúrlega hleypa leirnum úr öðru hverju svo að það er allt hægt að laga.

Ég hugsa að það séu flestir eða allir þingmenn á móti því að virkja Dettifoss, Gullfoss og Geysi þannig að þar er þegar kominn ákveðinn flötur sem menn geta sameinast um. Svo eru held ég mjög margir hlynntir því að virkja það sem þarna er eins og Blöndu sem er stækkun Blönduvirkjunar, ég held að nánast allir séu með því. Það þarf því ekki endilega að vera ágreiningur.

Það sem ég hef athugasemdir við er í fyrsta lagi að það virðist vera að virkjanir sem lenda í biðflokki, sérstaklega jarðvarmavirkjanir, sé ekki hægt að rannsaka. Þá er spurningin: Er það þá bara ævarandi geymsluflokkur? Það væri gaman að heyra sjónarmið um það. Væru menn til í að hleypa inn rannsóknum á það svæði til þess að þetta verði ekta biðflokkur sem getur þá farið í nýtingarflokk eða verndarflokk ef sýnist? Eða á þetta að vera ævarandi geymsluflokkur, þ.e. í raun verndarflokkur? Þetta er það sem menn hafa verið að tala um og gert athugasemdir við.

Svo ræddi ég nokkuð um jarðhitavirkjanir. Ég er orðinn dálítið skeptískur á þær þangað til ný tækni kemur fram sem gerir þessar óskaplegu röralagnir óþarfar. Mér finnst það mikill ljóður á landslaginu þegar þær liggja eins og krabbamein yfir falleg hraun, eins og í Hellisheiðarvirkjun sem mér finnst hafa verið mikil mistök. Ef allar þessar borholur hefðu átt upptök sín undir stöðvarhúsinu væri það fínt mál, þá væri þetta bara eins og hvert annað sveitahótel. Sérstaklega ef vandinn um brennisteinsmengunina er leystur og jafnvel farið að nýta brennisteininn úr þeirri mengun, þá yrði þetta eins og lítið og laglegt sveitahótel sem gæti verið skoðunarvert og fallegt í landslaginu.

Mér finnst því vera ýmislegt sem á eftir að rannsaka í þeim virkjunum þannig að jafnvel virkjanir sem eru í verndarflokki gætu lent í nýtingarflokki með samþykki flestra þegar viðkomandi mannauður er til staðar sem vinnur á öllum þeim vandamálum. En eins og ég gat um, jafnvel þótt mannauðurinn mundi hjálpa okkur með Gullfoss verður held ég seint sátt um það meðal þingmanna að virkja hann svo að það eru ákveðnir helgistaðir sem við viljum ekki ganga inn á, jafnvel ekki mestu virkjunarsinnar. Reyndar eru Niagarafossar í Bandaríkjunum virkjaðir á nóttunni þannig að þar er beitt þeirri ýtrustu tækni að nota virkjanir án uppistöðulóna.

Mér finnst meðferðin á þessu máli endurspegla stefnu hæstv. ríkisstjórnarinnar sem er að velja átök ef þau eru í boði. Það er náttúrlega ekki nógu gæfulegt fyrir íslenska þjóð að hafa fólk sem velur átök og vill ekki einu sinni kanna hvort það sé einhver möguleiki á sáttum. Ég er búinn að vera nokkuð lengi á þingi, og kannski allt of lengi að mati sumra, en ég hef sjaldan upplifað önnur eins átök og slagsmál eins og eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við fyrir tæpum fjórum árum. Það er Icesave, kvótinn, stjórnarskráin og það er virkilega dapurlegt hvaða leið menn hafa valið að fara í sambandi við stjórnarskrána, að mínu mati að henda þeirri heilögu bók fyrir úlfana í átökum. Auðvitað eiga menn að geta náð samstöðu um það og ég held að allir flokkar og allir þingmenn hafi lýst því yfir að þeir vilji breyta stjórnarskránni. Af hverju finna menn þá ekki fyrst hverju allir vilja breyta og gera það og eftir því sem skoðanir verða sterkari fara menn í ítarlegri umræðu til að sætta sjónarmiðin?

Ég er þeirrar skoðunar að það sé hægt að sætta nánast alla ef menn eru tilbúnir til að hlusta á skoðanir hver annars. Ég hef hlustað hér á skoðanir hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og ég get að sumu leyti fallist á þær, að bíða með vissa hluti og kanna þá betur eins og virkjanirnar á Reykjanesi. Þessi átakastjórnmál hafa skaðað íslenska þjóð mjög mikið á viðkvæmum tíma. Ég held að það sé kominn tími til, og vonast til þess, að eftir kosningar komi fólk á þing sem hlustar meira hvert á annað en það slæst hvert við annað.

Í heiminum öllum eru að verða miklar breytingar. Það koma sífellt öflugri og heiftarlegri vindhviður eða fellibyljir til Bandaríkjanna og sumir eru farnir að setja það í samhengi við hitnun jarðar. Það eru rök fyrir því að eftir því sem hitaskilin verða meiri á milli Norðurpóls og miðjarðarlínu aukist átökin í lofthjúpnum. Menn eru farnir að ræða um það samhengi og kannski verður það til þess að Bandaríkin snúi af sinni eindregnu stefnu gegn því að viðurkenna hitnun jarðar. Ég veit að Kína og Indland eru farin að horfa mjög alvarlega á þetta og ég held að þau hafi gert samkomulag fyrir nokkrum dögum um samstarf í umhverfismálum. Ég hugsa að loftslagskvótaverslun verði algeng því að þar nota menn það markaðskerfi sem er til í öllum heiminum til þess að vinna bráðan bug á koldíoxíðlosuninni sem veldur hitnun jarðar.

Ég hugsa því að eftir ekki lengri tíma en fimm eða tíu ár verði kominn almennur markaður með koldíoxíðlosanir sem getur orðið verulega lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf vegna þess að það hækkar verðið á orkunni um allan heim án þess að aðrir þættir breytist, eins og vextir af lánum, afborganir af lánum og annað slíkt. Það þýðir að Landsvirkjun og aðrir orkuframleiðendur á Íslandi, sérstaklega þeir sem framleiða á erlenda markaði eða í erlendri mynt eins og þeir sem stunda álframleiðslu og vonandi eitthvað fleira í framtíðinni, þar gerist ekki neitt annað en að það myndast gífurlegur hagnaður til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.

Ég sé þá þróun sem mjög jákvæða en til þess þurfum við að vinna sameiginlega að því að finna lausn á því hvað við ætlum að virkja og hvað við ætlum ekki að virkja.