141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta síðasta er mjög athyglisvert. Það var unnið faglega að því að koma með lausn sem velflestir hefðu getað sætt sig við. Ég var búinn að kyngja því að Villinganesvirkjun mundi lenda í biðflokki, ég var búinn að sætta mig við vissa virkjunarkosti sem færu jafnvel í verndarflokk.

Síðan gerist það að það eru sett á þetta pólitískt mark, þessu er breytt einhliða án þess að sátt myndaðist um það. Það er einmitt það sem mér finnst langverst í þessu, það að friðurinn er rofinn, sáttin er rofin. Þá telur sig enginn vera bundinn. Það er það sem ég óttast, líka fyrir hönd umhverfisverndarsinna, að þetta muni slá til baka og verða jafnvel verra gagnvart virkjunum. Næsta ríkisstjórn sem þarf að laga efnahag heimilanna þarf að laga atvinnulífið og allt slíkt og sem liður í því gæti verið að virkja dálítið rausnarlega. Þá getur verið að hún segi: Hér er búið að gefa fordæmi, við þurfum ekki að hlusta á þessa faglegu nefnd sem hefur unnið þarna og nú ætlum við að virkja dálítið duglega til að setja atvinnulífið í gang, lokka aftur heim Íslendingana sem fóru til útlanda og bæta hér lífskjör.

Þá held ég nefnilega að þetta frumkvæði Vinstri grænna muni skemma fyrir þessari sátt og að menn fari jafnvel að virkja það sem flestir hefðu sætt sig við að virkja ekki. Það er þetta sem ég hef varað við og hef talað um sem ákveðið skemmdarverk á þeirri sátt sem hafði myndast.

Nú kemur þetta til dæmis fram hjá hv. þingmanni, ég hef rekist á þetta líka, og þá til að svara seinni spurningunni um umgengnina vil ég nefna að ég hef séð hjá Keili palla úti um allt eins og litla flugvelli. Hvers vegna þurfa menn að gera þetta svona svakalegt þegar þeir eru að rannsaka?