141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var afar innihaldsrík og er ég honum sammála í mörgu af því sem kom fram í máli hans. Mig langar að spyrja þingmanninn í ljósi þess að þetta er rammaáætlun vinstri flokkanna eða raunverulega rammaáætlun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað honum finnist um að stjórnmálaflokkur komi eftir 13–14 ára samráðsferli þar sem mikil sátt hefur ríkt um þetta plagg og þessa vinnu, víða búið að leita álits á málinu í mörg ár, og gert plaggið að sínu, lagað það að sinni stefnuskrá. Þá lít ég fyrst og fremst til þess að það er búið að taka Þjórsá út úr nýtingarflokki og setja inn háhitavirkjanir á Reykjanesinu.

Er ekki óeðlilegt að þegar mál er sett í svo góðan farveg eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn komu þessu máli í á sínum tíma með skipun þessara starfshópa sé hægt að umbylta því á einni nóttu, má segja? Þessar breytingar koma inn þegar búið er að skjóta lögformlegum stoðum undir allt málið og það var gert á vordögum 2011 þegar samþykkt voru lög um rammaáætlun. Eftir það fer þetta í 12 vikna umsagnarferli, líklega gerviumsagnarferli því að málið var útrætt að mínu mati, og það er tekið inn með þessum hætti og því gjörbreytt.