141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið blasir við mér svona: Það var þannig að pólitísk tilskipun kom um það að ryðja yrði burtu úr nýtingarflokknum vatnsaflsvirkjunum sem voru þar inni, eins mörgum og hægt væri. Það tókst býsna vel því að þá voru bara tveir orkukostir eftir, Blöndulón og Hvalá á Vestfjörðum, annað er það nú ekki.

Þegar það var komið stóðu menn frammi fyrir ákveðnum halla því að áherslan hafði verið færð úr vatnsaflsvirkjununum yfir í jarðhitavirkjanir. Þar eru hins vegar líka innan borðs í stjórnarflokkunum miklir efasemdarmenn um jarðhitavirkjanirnar. Þá þurftu menn einhvern veginn að skrifa sig í gegnum það, ekki var hægt að koma með nýtt plagg inn í þingið þar sem engin jarðhitavirkjun væri og tvær litlar vatnsaflsvirkjanir, og þá var mönnum dálítill vandi á höndum.

Virðulegi forseti. En það verður auðvitað að dást að hugkvæmni manna og hún á sér stundum engin takmörk, þessi skapandi hugsun, hluti af hinum skapandi greinum, og þessi skapandi hugsun fór algjörlega á flug. Þá var búinn til mikill texti sem fól það í sér að segja okkur frá því að þó að menn væru með þetta þarna inni væri margt að varast. Við gætum lent í því að andrúmsloftið mengaðist svo mikið að manni lægi við köfnun, vatnið mengaðist svo mikið að það yrði ódrekkandi, maður hefði illt af, og ef menn héldu lífi yrðu menn væntanlega hristir í sundur í jarðskjálftum. Þetta er framtíðarsýnin einhvern veginn, þannig að þar með væri líka búið að skjóta þetta út af borðinu. En enn þá stendur olíuleitin eftir. Við hv. þingmenn verðum því að binda vonir við það að ríkisstjórnin muni ekki hverfa frá þeim áformum sínum (Forseti hringir.) enda er hún þegar farin að ráðstafa gróðanum.