141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Herra forseti. Þessi umræða og það sem tengist rammaáætluninni tók á sig aðeins breytta mynd í dag þegar Alþýðusamband Íslands sendi frá sér heilsíðuauglýsingu undir yfirskriftinni „Orð skulu standa“. Þar var meðal annars sagt frá því í sambandi við rammaáætlun, málið sem við ræðum, að fyrir hefði legið samkomulag um að hún yrði samþykkt í samræmi við tillögur sérfræðinganefndarinnar.

Í tengslum við þetta höfum við þingmenn Framsóknarflokksins óskað eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd komi saman til að fara yfir þessa yfirlýsingu og fái á fund til sín fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og fulltrúa atvinnulífsins. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeirri umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum í dag eftir að þessi auglýsing birtist. Það hefur ekki verið skemmtilegt að fylgjast með því. Það er ekki skemmtilegt að horfa upp á forustumenn ríkisstjórnarinnar í opinberu stríði við fjöldahreyfingu á borð við Alþýðusamband Íslands með yfir 110 þús. félagsmenn.

Gylfi Arnbjörnsson hefur sagt í fjölmiðlum í dag, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða okkar á fundinum í dag að við ættum ekkert vantalað við þessa ríkisstjórn. Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista þess að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi. Við erum búnir að reyna það til þrautar. Tími ríkisstjórnarinnar kom og fór.“

Gylfi Arnbjörnsson segir síðan við Ríkisútvarpið:

„Umræða um framtíðina, samskipti á vinnumarkaði, hvernig við stillum saman vinnumarkaðinn, efnahagsstefnu, atvinnumálum, uppbyggingu — það verður bara að bíða nýrrar ríkisstjórnar.“

Virðulegi forseti. Til að bregðast við þessari yfirlýsingu og auglýsingu Alþýðusambandsins er fyrst og fremst hægt að segja að ríkisstjórnin hefur ævinlega getað kallað til Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, til að fá einhvers konar gæðastimpil á hvað sem er sem frá henni kemur. En meira að segja forseti ASÍ, sem hefur sagt það opinberlega í dag að hann hafi leitast við og verið gagnrýndur fyrir að starfa fremur með ríkisstjórninni að málum en hitt, er búinn að fá sig fullsaddan á stefnu ríkisstjórnarinnar, ásamt fulltrúaráði Alþýðusambandsins, og á því hvernig loforð eru ítrekað svikin.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu í dag þar sem meðal annars var komið inn á rammaáætlun. Í þeirri yfirlýsingu stóð í lið 7, þar sem því var svarað að samið hefði verið um að rammaáætlun yrði afgreidd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndarinnar, með leyfi forseta:

„Fullyrðingin er röng enda ekkert sagt um að rammaáætlun skuli afgreiða í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar, heldur áréttað það markmið að afgreiða málið sem fyrst í viðeigandi ferli. Rammaáætlun er nú föst í málþófi stjórnarandstöðunnar í seinni umræðu á Alþingi, sem þegar hefur staðið í fjóra daga.“

Frú forseti. Í umræðunni hefur komið fram að forseti ASÍ hvetji beinlínis stjórnarandstöðuna til að halda hér áfram í þessu máli og öðrum málum til að stöðva ríkisstjórnina. Við sjáum að það er að brotna úr stjórnarliðinu. Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í dag að ríkisstjórnin fylgdi ekki þeirri efnahagsáætlun sem hann hefði lagt upp með. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Afleiðingin: Hrikalegri ágreiningur milli ráðherra ríkisstjórnar og forustu ASÍ en dæmi eru um síðustu áratugi. Þrasað er og öskrast á um allar staðreyndir og forsendur. Er ekki tími til að breyta um verklag? Eigum við ekki betra skilið?“

Virðulegi forseti. Maður hlýtur að velta því fyrir sér (Forseti hringir.) þegar forustumenn ríkisstjórnarinnar svara Alþýðusambandinu hvort þau hafi ráðfært sig í það minnsta við þennan hv. þingmann.