141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Það er kannski auðveldast að rifja það upp að einstaka þingmenn Vinstri grænna hafa lýst því yfir að stuðningur þeirra við ríkisstjórnina væri skilyrtur þess efnis að aldrei yrði farið í virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þar með hafi ekki verið hægt að hafa þá kosti inni þó að þeir séu bæði arðsamir og skynsamlegir.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að umræðan um laxastofnana var blásin svolítið upp. Veiðimálastofnun var með mjög skýr rök, og ég tek undir það, á þeim fundi og þau gögn sem þeir hafa lagt fram. Eftir sem áður getur verið að menn greini á um hversu góðar mótvægisaðgerðirnar séu, til að mynda þessi seiðafleyta sem fyrirhuguð var við Urriðafossvirkjun. Þess vegna hefur Landsvirkjun lagt til að sett verði í efstu virkjunina, Hvammsvirkjun, sambærileg seiðafleyta til að prófa hana. Ég hef lýst því yfir að mér finnist þá skynsamlegt við þær aðstæður að halda Urriðafossi áfram í bið, það má reyndar líka ræða um Urriðafoss á fleiri forsendum. Það má til dæmis sleppa því að virkja fossinn sjálfan, það er meira fall þarna, ætli virkjunin eða það sem kemur út úr henni verði ekki 15% eða 20% minna ef Urriðafossi væri sleppt, ef útfallið kæmi fyrir ofan fossinn. Þá væri hann óbreyttur svo til, það yrði engin breyting á rennslinu. Það má svo ræða hvort arðsemin sé nægilega mikil við það.

Við getum bara geymt hann, byrjað á hinum tveimur sem eru augljóslega góðir kostir, margrannsakaðir. Við þekkjum alla þætti þess að byggja slíkar virkjanir í Þjórsá þar fyrir utan, í byggð, rennslisvirkjanir. Það er því óskiljanlegt og sýnir bara hversu pólitískt þetta plagg er að það skuli ekki hafa verið tekið inn. Það hefði verið tilraun til þess að sýna það að menn vildu ná breiðari sátt, að hafa þessar tvær efri í neðri hluta Þjórsár inni og geyma Urriðafoss. (Forseti hringir.) Þá hefðu menn sýnt þann vilja að þeir vildu ná einhverri sátt en ekki setja fram það sem ég kalla öfgapólitískt plagg.