141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

samskipti ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Forseti. Hér birtist okkur að forherðing ríkisstjórnarinnar er í alveg ótrúlegri stöðu. Þetta er ekkert annað en forherðing. Er ekki kominn tími fyrir ríkisstjórnina að átta sig á því að sökudólgurinn í málinu er ekki ASÍ. Forsætisráðherra beinir orðum sínum að forseta ASÍ. Má ég vekja athygli á því að forseti ASÍ hefur formenn allra aðildarfélaganna að baki sér. Hann stendur ekki einn í þessari baráttu og ASÍ er heldur ekki eitt. Samtök atvinnulífsins hafa verið á sömu nótum. Þess vegna sprakk stöðugleikasáttmálinn. Það er greinilegt að ríkisstjórnin er algerlega komin upp við vegg og kann engin ráð í stöðunni.

Kjósendur í þessu landi, landsmenn allir, launþegahreyfingin og atvinnurekendur vita hins vegar að það skiptir höfuðmáli við aðstæður eins og þær sem nú eru uppi í þjóðfélaginu að við höfum ríkisstjórn sem getur unnið með fólki, sem sendir út að stjórnvöld ætli að standa að baki hreyfingum eins og ASÍ, Samtökum atvinnulífsins og öðrum þeim sem eru að reyna að efla atvinnu og auka kaupmátt (Forseti hringir.) launþeganna í landinu. Sú forherðing sem hér birtist (Gripið fram í: Hún hefur aukist.) sannfærir mig um að það er kominn tími, Jóhanna, til að skila lyklunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að ávarpa og nefna hv. þingmenn og hæstv. ráðherra fullu nafni.)