141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég túlkaði auglýsingu ASÍ í gær á þann hátt að samtökin væru búin að gefast upp á ríkisstjórninni. Þetta væri ákall til þingmanna, væntanlega þeirra þingmanna sem hingað til hafa hreinlega látið teyma sig á asnaeyrum og haldið að hægt sé að halda áfram hagvexti og uppbyggingu atvinnulífsins án þess að nýta undirstöðuatvinnugreinar eins og sjávarútveg og orkugeirann.

Ég ætla að rifja það upp að í umsögn ASÍ í vor, um veiðigjöldin og stjórn fiskveiða, var bent á að svo virtist vera sem ríkisstjórnin reiknaði með því að gengi íslensku krónunnar héldi áfram að vera lágt og varað við þeim forsendum. Þeir hjá ASÍ benda einmitt á að þetta sé eitt af þeim brotum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir en forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa svarið það af sér með því að ráðast harkalega að þeim. Það eru óvenjulegar og stórpólitískar fréttir hvernig trúnaðarbrestur hefur orðið milli ríkisstjórnarflokkanna og Alþýðusambandsins. ASÍ varaði einmitt við þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hafði um veiðigjöldin, hún mundi hafa þau áhrif að halda krónunni niðri. Svo sér ASÍ að í rammaáætluninni er heldur ekki tilgangurinn eða markmiðið að auka atvinnustarfsemi, innstreymi erlends fjármagns og þar af leiðandi styrkingu íslensku krónunnar í þessum atvinnugeira.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki fullan skilning á sjónarmiðum ASÍ sem telur að ríkisstjórnin sé að brjóta samninga vegna þess að í kjarasamningunum var reiknað með því að gengið mundi styrkjast og til þess að forsendur þeirra héldu þurftu ýmsir aðrir hlutir að gerast. Það er augljóst að ríkisstjórnin hefur hvergi reynt að gera neitt, ekki í einu einasta máli (Forseti hringir.) sérstaklega ekki í stóru málunum, sjávarútveginum og orkugeiranum, til að svo gæti orðið.