141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Segja má að það sem hefur kannski helst komið á óvart sé langlundargeðið sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt hæstv. ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Það er ekki hægt að segja annað en að aðilar vinnumarkaðarins, Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri, hafi virkilega verið tilbúnir til að leggjast á árarnar með hæstv. ríkisstjórn og sýnt það í verki. Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var á sínum tíma er auðvitað eitt skýrasta dæmið um það. Kjarasamningarnir frá því vorið 2011 og sú yfirlýsing sem þá var gefin, samstarfið sem þar tókst og það traust sem þessir aðilar vinnumarkaðarins sýndu ríkisstjórninni á þeim tímum sýna það einnig.

Þetta hafa menn gert þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafi ítrekað svikin gefin loforð. Í raun blasir við öllum þegar lesin er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 að fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra og þær hártoganir sem hún fór með hérna standast enga skoðun. Ég fór yfir þetta í ræðu minni áðan. Það er alveg ljóst af orðalagi yfirlýsingarinnar að ríkisstjórnin var vísvitandi að blekkja, með loðnu orðalagi, þessa aðila vinnumarkaðarins og nú leggur hún allt annan skilning í þann texta en mátti augljóslega skilja hann við þær aðstæður sem þá voru uppi.

Þetta er stóralvarlegt og ég held að það sé tímabært að fjölmiðlar gefi því meiri gaum hversu alvarleg staðan er. Það er ótrúlegt að umræðan til dæmis um rammaáætlun skuli ekki hljóta meiri umfjöllun í fjölmiðlum en raun ber vitni, að við skulum sitja uppi með það að umræðan um hana felist helst í því að menn séu gagnrýndir fyrir eitthvert málþóf. (Forseti hringir.) En við sjáum þetta best á yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands í gær. Grunninn er að finna þarna. Grunninn er að finna í því að við höfum ekki lokið rammaáætlun. (Forseti hringir.) Þar er að finna orsökina fyrir því að fjárfesting hefur ekki farið af stað. (Forseti hringir.) Þetta er orsakavaldurinn að svo mörgu í okkar samfélagi.