141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja meira frá samtali mínu við hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi og fjalla um þau rök sem hv. þingmaður leggur fram og er mér sammála um, að hér hafi ráðherrar brotið frumkvæðisskyldu stjórnvalda að rannsaka mál til hlítar og gæta meðalhófsins, henda málinu bara til hliðar af því að þeir voru búnir að ákveða niðurstöðuna fyrir fram. Það kom einmitt fram í máli hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi. Meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar og þeir stjórnarþingmenn sem samþykkir eru málinu, þar með taldir einstaka ráðherrar, hafa einmitt komið hér upp og haldið því fram að viðhöfð séu fagleg vinnubrögð og við séum að fara að lögum. Vísa þeir þá til laga nr. 48/2011, ef ég man númerið rétt, sem samþykkt voru í þinginu um meðferð rammaáætlunar. Þau voru samþykkt hér samhljóða en það hvarflaði bara ekki að nokkrum manni að hægt væri að túlka þau lög með þeim hætti sem hæstv. ráðherrar gerðu.

Það kom líka fram í máli hæstv. umhverfisráðherra í gær að ekki hafi staðið til að færa einn einasta virkjunarkost úr biðflokki í nýtingarflokk, alveg sama hvaða gögn hafi legið fyrir. Stóð það í þessum lögum? Las hv. þingmaður það út úr þeim lögum þegar hann ýtti á græna takkann og samþykkti lögin að þetta 12 vikna umsagnarferli þýddi að aldrei væri hægt að færa kost úr biðflokki í nýtingarflokk þó að öll rök hnigju að því? Við höfum til að mynda nefnt Hagavatnsvirkjun sem komu fimm umsagnir um og allar jákvæðar, það kom engin neikvæð umsögn. Ef menn væru nú bara samhljóma og trúverðugir í málflutningi sínum. Ef menn segja að virkjunarkostur sé færður í biðflokk vegna margra neikvæðra umsagna ættu þeir að sama skapi að færa annan kost í nýtingarflokk. Varðandi Hólmsárvirkjun þá hníga öll rök að því að færa þann kost í nýtingarflokk vegna þess að það voru mannleg mistök að (Forseti hringir.) týna þeim gögnum. Þau fundust og það er mat sérfræðinga að þau séu fullnægjandi til að setja þann kost í orkunýtingarflokk.