141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem Orkustofnun bendir á er mjög mikilvægur þáttur. Hún bendir á að skynsamlegast sé að vinna þessi verkefni, jarðhitaverkefnin annars vegar og vatnsorkuna hins vegar, á sama tíma vegna eðlis jarðhitaverkefnanna. Það tekur lengri tíma að finna út hver raunveruleg orkugeta jarðhitasvæðanna er. Ég er alveg sammála þessu. Þess vegna finnst mér það skjóta svo skökku við og vera algjörlega í ósamræmi við hugmyndafræðina um sjálfbæra nýtingu á orkusviðinu þegar þessu máli er teflt þannig fram að ýta eigi út best rannsökuðu, hagkvæmustu kostunum eins og virkjunum í neðri hluta Þjórsár og fleiri virkjunum en láta jarðhitaverkefnin sitja eftir vegna þess að þau eru í eðli sínu annars konar verkefni og það þarf að vinna þau samhliða. Það er þessi tvískinnungur sem mér finnst blasa við.

Ég vildi líka spyrja hv. þingmann hvort hún hefði ekki talið það koma til dæmis til greina að samþykkja að í nýtingarflokki væri efri hluti (Forseti hringir.) virkjananna í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Holta- og Hvammsvirkjun.