141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Ég nefndi þær tölur sem hv. þingmaður bar hér fram varðandi ársverkin, ábatann og hagvöxtinn. Ég legg áherslu á að þetta er væntur ábati, þetta er ekki eitthvað sem við erum að tapa þó að þetta hafi gerst, en við erum að missa af ákveðnum tækifærum að mati þessa fyrirtækis. Að því gefnu að mat fyrirtækisins Gamma sé rétt rímar það mjög illa við fjárlagagerðina og fjárhagsstöðu ríkissjóðs eins og hún birtist okkur í vinnu við fjárlagagerðina. Það sem verra er er að margt í fjárlagagerðinni sem kallar á að hlutir tengdir orkunýtingu geti gengið fram styður ekki þau áform. Að því leytinu má fullyrða að fjárlagafrumvarpið styðji ekki þjóðhagsforsendur fjárlaga. Það leiðir bara til einnar niðurstöðu sem er sú að fjárlagaramminn skekkist, við töpum tekjum og hin erfiða staða verður erfiðari viðfangs. Þannig að þetta bítur allt í skottið á sér. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig standi á því. Ég hef ekki fengið neinar haldbærar skýringar á því, þ.e. röksemdir sem hafa verið lagðar fram fyrir þessari forgangsröðun, ef svo mætti kalla, eru litlar sem engar. Það er mjög miður þegar við glímum hér við gríðarlega erfiða stöðu, hvort heldur er á sviði ríkisfjármála eða í afkomu eða búsetu og lífsskilyrðum almennings í (Forseti hringir.) landinu.