141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Í sjálfu sér væri hægt að svara spurningunni mjög fljótt og vel: Nei, ég hef ekki fengið nægilegar skýringar. Ég ræddi þó við hæstv. umhverfisráðherra í gærkvöldi einmitt um þann þátt. Eiginlega finnst mér það vera brot á frumkvæðisskyldu stjórnvalda að rannsaka ekki virkjunarkost þegar gögn um hann týndust. Síðan fundust þau og voru greinilega metin í ráðuneytunum miðað við jákvæða umsögn orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins. Engu að síður segja ráðherrarnir: Við ætlum ekki að meta þennan kost af því það stendur ekki í lögunum. Hæstv. umhverfisráðherra reyndi að halda því fram að ferlið væri bæði faglegt og löglegt og að sérstaklega væri farið eftir túlkun laganna. Ég kannast ekki við varðandi lög um meðferð rammaáætlunar, sem samþykkt voru hér samhljóða og unnin í þáverandi iðnaðarnefnd, ef ég man rétt, að tilgangur þess að ráðherrar kæmu að málinu væri að færa verkefni úr verndarflokkum og nýtingarflokkum í biðflokk, að það væri verkefnið. Ég kannast ekki við það. Ég held aftur á móti að menn hafi átt að meta gögnin á faglegan hátt, að það hafi verið skylda þeirra. Í báðum þeim tilvikum er það augljóst.

Varðandi neðri hluta Þjórsár vildu menn hlusta á þau rök sem Veiðimálastofnun er ekki sammála, þ.e. að ekki þurfi neinar frekari rannsóknir á fiskigengd. Auðvitað er gott að hafa sífelldar rannsóknir og er Veiðimálastofnun sem rannsóknarstofnun auðvitað fylgjandi því. En hefðu menn viljað taka tillit til þeirra hefðu þeir getað sagt: Ókei, við skulum taka tvær efri virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár og setja þær í nýtingarflokk. Landsvirkjun, virkjunaraðilinn, ætlaði meira að segja að prófa seiðafleytu sem átti að vera við Urriðafoss í efstu virkjun, væri þá komin reynsla á það, og setja Urriðafoss í bið.

Varðandi (Forseti hringir.) „buffer zone“ og Vatnajökulsþjóðgarð eru engin rök, bara pólitísk markmið.