141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:56]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sé það að hin pólitísku fingraför hafa líka valdið því að stærsti hluti þeirra virkjunarkosta sem ekki eru inni og ýtt er til hliðar í annan flokk er í kjördæmi hv. þingmanns, Suðurkjördæmi. Þar sem ég veit að hv. þingmaður hefur mjög mikla þekkingu á því kjördæmi og er vel tengdur þangað inn væri fróðlegt að heyra mat hans á áhrifum þeirra tillagna sem fyrir liggja í þessu formi frá stjórnarmeirihlutanum á búsetuskilyrði í Suðurkjördæmi.

Mér virðist oftar en ekki hlutir vera afgreiddir af hálfu stjórnarmeirihlutans undir þeim formerkjum að það sé allt í lagi að bíða á meðan reynt er að greiða úr einhverjum pólitískum ágreiningi. Ég hef ástæðu til að ætla að hluti af stjórnarsamkomulaginu, sem að vísu er ekki ritað í stjórnarsáttmálann, sé einfaldlega sá að vatnsaflsvirkjanir séu ekki á dagskrá meðan Vinstri grænir séu í ríkisstjórn (Gripið fram í: Vinstri …) þar af leiðandi veltir maður því fyrir sér hvort sú gjörð sem hér liggur fyrir í formi þingsályktunartillögu sé ekki í raun enn ein atlaga þessarar ríkisstjórnar að búsetuskilyrðum fólks úti á landsbyggðinni. Það væri fróðlegt að heyra hvort hv. þingmaður er sammála því mati mínu. Ég treysti honum til að leggja mat á áhrifin af þeirri pólitísku tillögu á þær aðstæður sem fólk glímir við í hans víðfeðma kjördæmi. Það væri fróðlegt að heyra skoðanir hv. þingmanns í þá veru.