141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur lengi verið unnið að gerð rammaáætlunar og allan þann tíma var markmiðið að skapa sátt um fagleg vinnubrögð og aðferðir við að meta virkjunarkosti út frá mismunandi sjónarmiðum. Það átti að meta jafnt út frá orkugetu, hagkvæmni viðkomandi kosta, þjóðhagslegum áhrifum, öðrum áhrifum á samfélagið, áhrifum á atvinnulíf og byggðaþróun og áhrifum á náttúrufar, náttúru og menningarminjar. Með það að leiðarljósi var lagt upp í þessa för fyrir margt löngu. Grunnhugmyndin var í raun sú að búa til vinnulag og verkferla sem byggðust á faglegum forsendum, sem dregið gæti úr þeim miklu deilum sem oft hafa staðið um einstaka virkjunarkosti á umliðnum árum.

Virðulegur forseti. Mér sýnist á þeirri umræðu sem hér fer fram, þegar fyrir liggur tillaga meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þá veru sem hér er, að hún beri ekki merki mikilla sátta. Það hefur meira að segja komið fram hjá þingmönnum sem vitnað hafa í umsagnir aðila að aðferðafræði rammaáætlunarinnar sjálfrar er af einhverjum ekki talin nægjanlega þroskuð. Hún er ekki talin taka mið af samfélagslegum og hagfræðilegum sjónarmiðum og komið hefur fram í umræðunni að svo virðist sem hér takist á þeir sem nefna sig náttúruverndar- eða umhverfissinna og svo aftur virkjunarsinnar. Eins og það tvennt geti aldrei farið saman.

Þetta er einhæf framsetning á því sem hér er rætt, að ekki sé hægt að vera umhverfissinni og hafa áhuga á náttúruvernd vilji maður jafnframt virkja. Það hlýtur að þurfa að taka þessa þrjá þætti saman, umhverfið, almenna náttúruvernd og virkjun, og vega og meta hvernig og hvar við ætlum að virkja.

Það virðast í mínum huga vera megináherslur hér. Menn hafa stillt því upp sem góðu og vondu, góðum og vondum stjórnmálaflokkum eftir því hvar í flokki þeir sitja eða standa og stillt því upp sem orkunýtingu annars vegar og verndun hins vegar.

Ég velti því fyrir mér sem venjulegur borgari þessa lands og ekki eingöngu sem starfandi þingmaður, hvort það sé virkilega verkefni stjórnmálamanna að takast á við jafnsérhæft verkefni og þetta er og horfa fram hjá þeim faghópum sem hafa lagt til rammaáætlun, verkferla og vinnulag. Síðan taka pólitíkusar sig til og breyta.

Mér virðist það stundum, og það kann að vera rangt mat, byggjast meira á tilfinningu fyrir einstaka landsvæðum en því sem við erum kannski að velta fyrir okkur, landsins gæðum og því að búa til og tryggja lífsgæði fólksins í landinu.

Ég velti til dæmis fyrir mér þeirri ákvörðun að færa Hólmsárvirkjun neðri við Atley sem er virkjunarkostur sem sveitarstjórnarmenn í Skaftárhreppi hafa talið vænlegan fyrir sína hönd. Er vænlegt fyrir lífsgæðin í landinu með tilliti til atvinnuvega og byggðaþróunar að færa þessa virkjun til í flokki?

Nú þekkja það flestir sem eru hér inni, hafa setið í nefndum og heyrt af að Skaftárhreppur er lítið sveitarfélag og þar ganga hlutir kannski ekki jafn vel og oft áður. Ein ástæða þess að Skaftárhreppur, og ég leyfi mér, virðulegur forseti, að gera það byggðarlag sérstaklega að umræðu hér, er hvorki samkeppnisfær í landbúnaði né fær til þess að taka við einhverjum annars konar léttum iðnaði í sínu sveitarfélagi er vegna þess að þar er ekki það sem að minnsta kosti við sem búum á höfuðborgarsvæðinu köllum eiginlega sjálfsagt og er þriggja fasa rafmagn. Það mundi gjörbylta því ástandi sem nú ríkir í sveitarfélaginu, í það minnsta í landbúnaði, fengi það að virkja þar sem það hefur óskað eftir því. Svo er ekki. Það er fært til og að því er virðist ætlar Alþingi í staðinn að reisa gestastofu á Kirkjubæjarklaustri til þess að byggja upp atvinnulíf í Skaftárhreppi. Hún mun örugglega laða að fleiri ferðamenn og þjónusta með einum eða öðrum hætti en hún byggir ekki almennt upp atvinnulíf í þessum hreppi sem þarf svo mjög á því að halda.

Virðulegur forseti. Ég velti því fyrir mér hvað ræður í raun för þegar fært er úr nýtingarflokki í bið og svo aftur úr biðflokki í vernd.

Ég tek það fram hér og nú að ég hef ekki fagþekkingu vísindamannsins til að meta þessa virkjun en samkvæmt rammaáætlun var hún áður sett þannig að hana átti að virkja og um það var sátt. Hún er þar inni í aðalskipulagi sveitarfélagsins o.s.frv. Það leiðir hugann að því sem ég gerði verulegar athugasemdir við í öðru máli og var landsskipulagsáætlunin svokallaða. Mér sýnist að rammaáætlun eins og hún liggur fyrir færi inn í svokallaða landsskipulagsáætlun sem síðan bæði svæðaskipulag og aðalskipulag sveitarfélaga þyrfti að byggjast á. Þá erum við akkúrat komin að því sem varað var við þegar landsskipulagsáætlunin var sett á laggirnar. Það mun meðal annars koma við þann ágæta hrepp sem heitir Skaftárhreppur.

Virðulegur forseti. Það er fleira sem kemur venjulegri manneskju sem les þessi nefndarálit og hefur farið að minnsta kosti þokkalega í gegnum það sem hér liggur fyrir undarlega fyrir sjónir. Það er það sem við ræðum og er í mínum huga eiginlega í hróplegu ósamræmi, þegar ákveðið er að hverfa frá eða færa til virkjanirnar í Þjórsá sem hefur nú verið rannsakað lengi og vel eftir því sem fram kemur í umsögnum þar sem Landsvirkjun og Veiðimálastofnun hafa lagt fram ítarleg gögn um rannsóknir á þeim vatnsaflsvirkjunum. Menn telja að þar sé ekki nægilega vel að verki staðið og það þurfi frekari vitnanna við, ef við getum leyft okkur að segja svo. Síðan eru menn reiðubúnir til að halda inni jarðvarmavirkjunum á til dæmis Reykjanesi og fleiri stöðum, virkjanir sem við þekkjum eiginlega miklu minna en nokkurn tímann vatnsaflsvirkjanirnar. Það stendur á tveimur stöðum í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Við nýtingu háhita til raforkuframleiðslu hafa sem áður segir komið fram ýmis álitaefni undanfarin ár, og lúta þau að nokkrum grundvallarþáttum. Efasemdir og áleitnar spurningar hafa vaknað um sjálfbærni orkuvinnslunnar, um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns, um mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis og um jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar.“

Við þekkjum af Hellisheiðarvirkjun það ónæði, ef við getum orðað það svo, sem hefur hlotist af niðurdælingu og þá jarðskjálfta sem hafa gengið þar á og truflað líf þeirra sem búa í næsta nágrenni. Maður veltir því fyrir sér að þegar þetta er hér hvort í sinni hendi, vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá og jarðvarmavirkjanir á Reykjanesskaga og það liggur fyrir meiri þekking og meiri rannsóknir á vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá heldur en nokkurn tímann jarðvarmavirkjunum á Reykjanesi, er samt ekki gert neitt í því að færa til eftir því sem ég get lesið kostina og gallana við þetta tvennt. Þjórsá er ýtt út af borðinu og Reykjanesskaga er haldið inni eins og hér segir, með leyfi forseta:

Þrátt fyrir það sem fram hefur komið „gerir meiri hlutinn ekki tillögur um að breyta flokkun kostanna á Reykjanesskaga þar sem ekki séu til þess rök samkvæmt aðferðafræði rammaáætlunar.“

Þessi sami meiri hluti telur sig hafa rök samkvæmt aðferðafræði rammaáætlunar til að breyta flokkuninni á vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá.

Það hefur líka komið fram af hálfu ýmissa í þessari umræðu að við gætum unnið þetta verkefni mun betur. Þá spyr maður sig af hverju það er þessi mikli þrýstingur á að verkinu sé lokið ef hægt er að vinna það betur, og jafnt þeir sem eru hlynntir því meirihlutaáliti sem liggur fyrir, sem er væntanlega meiri hluti þingmanna, gegn því sem þeir segja sem eru andvígir því. Maður veltir fyrir sér ef hægt er að vinna verkið betur af hverju það er ekki gert. Af hverju er þessi ákvörðun meiri hluta ekki lögð til hliðar og sú rammaáætlun og það verklag sem fyrir var tekið aftur upp og skoðað frekar með tilliti til þess að þróa aðferðafræðina, skoðað betur hvort samfélagslegra og hagfræðilegra sjónarmið þeirra sé gætt og dregið úr þeim hraða sem á að vera á þessu verki?

Það hefur líka komið fram og hefur verið vitnað til þess að við þær breytingar sem stjórnmálamenn eru að gera á þessu ræður för að sumu leyti tilfinning fyrir gæðum landsins og náttúru, sem er nú svo sem einn og sami hluturinn, og einhverjar aðrar á báða bóga, önnur sjónarmið. Það virðist vera að til dæmis með því að hverfa frá og færa um set virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár þýði það einfaldlega færri störf og minnkandi framleiðni vegna þess að það dregur úr hagvexti. Það þýðir minni tekjur, virðulegur forseti.

Hér liggur fyrir fjárfestingaráætlun 2013–2015 af hálfu ríkisstjórnarinnar. Verkefni vítt og breitt um landið, misjöfn að gæðum að mínu mati, en fjármunirnir sem eiga að koma í þau verkefni koma annars vegar frá arðgreiðslum úr bönkum, sölu eigna ríkisins í fjármálastofnunum og svo auðlindagjaldi af sjávarútveginum. Það er í sjálfu sér ekkert í hendi hversu hátt verð fæst fyrir eignarhlutina né hversu miklar tekjur af veiðileyfagjaldi skila sér í ríkissjóð. Þar erum við ekki að tala um að fjölga störfum og efla framleiðni. Í fæstum þeim verkefnum sem liggja fyrir innan fjárfestingaráætlunar er það haft að leiðarljósi.

Þegar stjórnmálamenn almennt fara að grípa inn í ferli sem er byggt upp eins og aðferðafræði rammaáætlunar er byggð upp og vísindamenn og fagfólk innan geirans hafa komið að og breyta með þessum afleiðingum, m.a. fækkun starfa, minni framleiðni, dregur úr hagvexti og þar af leiðandi tekjum í ríkissjóð, veltir maður því fyrir sér hvort ekki sé verr af stað farið en heima setið.

Eftir að hafa hlustað á þessar umræður hér og þær vangaveltur sem margir þingmenn hafa komið fram með, teldi ég affarasælast að umræðunni yrði frestað og menn, þingmenn jafnt sem aðrir, sem komu að rammaáætluninni og því verkefni sem hér er færu yfir það aftur til að ná þeirri sátt sem ég tel nauðsynlegt að við náum um jafnmikilvægt verkefni og vernd og orkunýting landsvæða. Þetta er stórt og mikið verkefni. Það skiptir alla Íslendinga í dag máli. Það skiptir komandi kynslóðir máli. Það er ekki boðlegt að mínu mati að fara fram með jafnmikilvægt verkefni í bullandi ágreiningi, úr takti við það sem lagt var upp með og í ágreiningi innan þings.

Virðulegur forseti. Það hefur líka komið fram, og það vita allir sem vilja vita, að hluti af þeirri málamiðlun sem liggur fyrir af hálfu þingmanna er gerð til að halda lífi í ríkisstjórninni vegna þess að í það minnsta einn þingmaður hefur lýst því yfir opinberlega að hann mundi hætta stuðningi við ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar ef farið yrði í virkjanir í Þjórsá. Það liggur fyrir og það er enn dapurlegra að þegar slík yfirlýsing liggur fyrir skuli menn fara þá leið sem hér er farin og umbylta því sem hefur verið gert.

Ég tilheyri þeim flokki sem sumir þingmenn hér inni hafa leyft sér að segja að vilji eyðileggja landið og náttúruna. Ég persónulega er ekki umhverfissóði. Mér þykir vænt um landið mitt og hef farið víða um það. Ég hef séð að það er bæði gengið vel og illa um það. Ég vil skila mínu landi til komandi kynslóða eins vel og ég get. Ég sit því aldrei undir því að vera sett í hóp þeirra sem vilja eyðileggja íslenska náttúru eða íslensk landsvæði almennt en ég get ekki fallist á að það sem hér er lagt til að eigi að njóta forgangs og að það sé farið fram með það svona vegna þess að það er í bullandi ósátt. Svona stórt mál, enn eitt, getur ekki og má ekki fara frá þingi í þessari ósátt.